Að útrýma mismunun

Allt ætlar vitlaust að verða hjá bloggurum þegar 100 konur bjóðast til að sitja í stjórnum stórra fyrirtækja. Þarf ekki annað en að skoða fyrirsagnir á bloggfærslum við þeirri frétt sem ég hef tengt hér við. Ég vel tekið undir með mörgum bloggaranna að mér líka almennt séð ekki þvinganir. En hvað á þá að gera þegar lítið breytist þvingunarlaust? Ísland hefur ritað undir Samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Convention on the Elimination of all Forms of Discrimination against Women, CEDAW) sem er á vegum Sameinuðu þjóðanna (nærri milljón vefsíður koma upp ef CEDAW er gúglað). Margir eru haldnir þeirri grillu að kynjajafnrétti komi af sjálfu sér og fyrirhafnarlítið. Svo er ekki; afnám kynjamismunar í launum hjá Akureyrarbæ varð svo sannarlega ekki fyrirhafnarlaust, en í morgun átti ég þess kost að hlýða á kynningu á niðurstöðum á fundi bæjarmálaráðs þar sem fulltrúum í samfélags- og mannréttindaráði bæjarins var boðið til. Nú eru á ferð 100 sjálfboðaliðar sem vilja aðstoða stjórnvöld við að útrýma einni tegund mismununar og ég skora á eigendur fyrirtækjanna 100 að þiggja aðstoðina og gera þannig stjórnvöldum lífið léttara. 

Að lokum vil ég kynna draum um að stúlkur geti séð fram á að fá sömu laun, námsmöguleika og líkur á valdastöðum þegar þær verða fullorðnar og fullorðnir karlar, heima í héraði sem og á lands- og heimsvísu. Á sama hátt dreymir mig um að drengir geti vænst þess að umgangast börnin sín og hafi líka námsmöguleika og stúlkur og mæti ekki fordómum fari þeir í óhefðbundin störf fyrir karla.
mbl.is Kynjakvóti bundinn í lög?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Ég las þetta fyrst sem "Að útrýma vitsmunum".

Mér finnst það meira lýsandi um þessa tillögu, a.m.k. á meðan er ekki er gert ráð fyrir kynjaskiptingu fólks í viðkomandi starfsstéttum og fyrirtækjum.

Er eitthvað vit í að helmingur skólastjóra í leikskólum eigi að vera karlar, ef aðeins um 5% leikskólakennara eru karlar?

Einar Jón, 31.1.2008 kl. 17:20

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Einar Jón, hvaða tillögu ertu að vísa til? Tiboðs kvennanna 100?

Reyndar eru karlkyns leikskólakennarar engin 5% heldur1-2%! Ef við förum eftir kynjahlutfalli í fyrirtækinu myndi ansi mörgum fyrirtækjum vera stjórnað af konum.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 31.1.2008 kl. 17:36

3 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ef Einar læsi fréttina, þá myndi hann vita að ekki er verið að tala um skólastjóra eða aðrar stjórnunarstöður, heldur sæti í STJÓRNUM fyrirtækja.

Á þessu tvennu er verulegur munur, sem margir bloggarar sem hneyksluðust á fréttinni virðast ekki skilja.

Svala Jónsdóttir, 31.1.2008 kl. 18:23

4 Smámynd: Einar Jón

Ég veit hvar þetta gildir, en mikilvægasta spurningin er til hvers? Af hverju að draga fólk inn í stjórnir fyrirtækja sem það hefur hvorki þekkingu né áhuga á, bara til að uppfylla kvóta?

Ég man ekki eftir neinu risastóru "kvennafyrirtæki" á Íslandi til að taka dæmi um svo ég notaði leikskóla til að benda á fáránleikann í þessu.

Mæli með greinunum Aldraðar mæður i stjórn og Og verðlaunin fyrir heimskulegustu ummæli dagsins fær... til upplýsingar.

Einar Jón, 31.1.2008 kl. 23:40

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Einar Jón, ég held að það sé lítil hætta á að konur verði dregnar inn í stjórnir fyrirtækja til að uppfylla kvóta, m.a. af því að það hefur komið í ljós í þessari auglýsingu og viðbrögðum annarra kvenna við henni að það eru margar konur sem eru tilbúnar til að leggja af mörkum.

Nú er ég reyndar ekki réttasti maðurinn til að spyrja út í kynjakvótann af því að ég er ekkert sérstaklegur hlynntur honum; meginatriðið í svari við til hvers veit ég þó að er fjölbreytni og fleiri sjónarmið. Út frá því sjónarmiði væri aldursdreifing líka nokkurs virði og í Bandaríkjunum hafa verið kynþáttakvótar. Svo hafa komið fram vísbendingar um að konur séu betri stjórnendur, ekki síst að mér skilst þegar kemur að því að fyrirtæki sem konur stjórna fari síður á hausinn; sé það satt vonast ég til að geta lært af því, vegna þess að ég trúi ekki að það sé meðfætt. Sjálfsagt er margt fleira sem mælir með því að konur séu í stjórnum fyrirtækja; eflaust myndu einhverjir áhugalausir karla þá líka losna við ábyrgð.

Ég hlustaði á Margréti Kristmannsdóttur, formanns Félags kvenna í atvinnurekstri, á RÚV í kvöld; hún segir að auglýsingin sé sett fram til að eigendur fyrirtækja taki þannig við sér og leiti til þessara mörgu kvenna, þannig að það þyki í kjölfarið óþarft að setja kynjakvóta. Væntanlega myndi það gleðja marga. En löggjafinn mun þurfa að grípa til þvingunaraðgerða verði ekki breytingar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 31.1.2008 kl. 23:59

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér innlitið og umræðuna, Guðmundur Páll. Nú hafa engin slík lög, sem um er rætt og hafa verið sett í Noregi, verið sett hér á landi og verða örugglega ekki sett ef konum fjölgar í stjórnum fyrirtækja. Ekki viss um hægt sé að bera saman hlutfall kynja og hlutfall þeirra er heita Guðmundur. Afskaplega ólíkar breytur, svo notað sé þess háttar orðfæri; myndu ekki passa í sömu rannsóknina.

Af hverju er "réttur" eigenda fyrirtækja til hlutdrægni svo mikilvægur? Konur hafa minni áhrif í samfélaginu og fyrirtækin hafa áhrif - um það snýst málið. Reyndar dettur mér í hug þegar þú nefnir "þinn litla rekstur" að það getur vel verið að það ætti að gera greinarmun á almenningshlutafélögum og einkahlutafélögum eða eftir stærð þeirra ef til lagasetningar kæmi.

En ert þú með hugmyndir um hvernig á útrýma mismunun gegn konum?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 4.2.2008 kl. 22:11

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Guðmundur ... er búið að tryggja jafnrétti með lögum? Nei, það held ég ekki, bæði vegna þess að það er hægt að setja fleiri lög um jafnan rétt og það þarf líka að tryggja að ekki sé mismunað þrátt fyrir lög, til að tryggja að stöðuveitingar séu eftir gagnsæjum reglum eftir því mögulegt er. Konurnar 100 sem bjóðast til að sitja í stjórnum fyrirtækja tóku boltann, að mér skilst m.a. vegna þess að þær vilji ekki láta setja lög um kvóta. Þú minnist á launaleyndina og kröfur karla um laun; fyrir mér snýst launaleyndarmálið um að það verði óheimilt að banna fólki að segja frá því hver laun þess eru, en það mun vera í einhverjum persónulegum samningum.

Ég er sammála þér í því að það þarf að huga að forræðisdómum; það hefur m.a. nafni minn Gíslason hjá Jafnréttisstofu rannsakað. En sumt af því sem þú nefnir og konur "hafa", hafa þær vegna þess að þær komu því upp sjálfar og njóta sem betur fer opinberra styrkja. Er ekki verið að huga að stuðningi við Breiðuvíkurdrengina? Þar fara einstaklingar sem minna máttu sín í samfélaginu á sínum tíma. Það er nefnilega fjöldi karla sem má sín lítils í samfélaginu og af því að við lifum í samfélagi er þýðingarmikið að við tryggjum að sem flestum líði vel.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.2.2008 kl. 09:18

8 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þekki þessi lög og jafnréttismál vel. Þú hefur áreiðanlega lesið líka IV. kafla laganna um almennt bann við mismunun. Þar er tekið fram: "Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Þá teljast aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu" (leturbr. mínar). Um ráðningu hins hæfasta þá eru líka ákvæði sem gera ráð fyrir að séu fleiri en einn jafnhæfir skuli ráða af því kyni sem er í minnihluta. Það er reyndar svo að e.t.v. ætti að setja sérstök lög um hæfnismat umsækjenda því að pottur er brotinn út frá mörgu öðru en kyni umsækjenda. Aðalatriðið er að gera reglur um mat faglegri og gagnsærri.

Rannsóknir sýna að lögin hafa ekki ekki tryggt fullt jafnrétti en þau hafa gert gagn því að það er í sumu atriðum farið slælega eftir þeim og úrræði til hins arna eru fá. Þess vegna liggur frv. fyrir Alþingi þar sem gert er ráð fyrir ýmsum breytingum sem annars vegar ættu að gera auðveldara að framfylgja lögunum og skerpa á ýmsum ákvæðum, meðan annað er óbreytt.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.2.2008 kl. 20:09

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Leiðrétting á síðari efnisgrein síðustu aths. (kl. 20:09):

Rannsóknir sýna að lögin hafa ekki ekki tryggt fullt jafnrétti en þau hafa gert gagn. Í sumum atriðum er hins vegar farið slælega eftir þeim og úrræði til hins arna eru fá. Þess vegna liggur frv. fyrir Alþingi þar sem gert er ráð fyrir ýmsum breytingum sem annars vegar ættu að gera auðveldara að framfylgja lögunum og skerpa á ýmsum ákvæðum, meðan annað er óbreytt.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.2.2008 kl. 20:13

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir rökræðurnar, Guðmundur Páll; við sjáumst vonandi við tækifæri.

Kveðjur að norðan

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 8.2.2008 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband