Ábyrgðin á álkunni og Hamskiptin

Ég var á umhverfisþingi sem umhverfisráðuneytið gengst fyrir annað hvort ár. Skemmst er frá að segja að þetta var ánægjulegt þing og talsvert annar tónn í náttúruverndarsinnum en áður vegna jákvæðrar afstöðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra sem hóf þingið með hverju loforðinu á fætur öðru, bæði í inngangsorðum sínum og litlu brúnleitu riti. Stóra loforðið sem vissulega er ekki jafn áþreifanlegt og sum hinna er að hún ætlar sér að rétta hlut náttúruverndar sem hefur farið halloka gegn ótal skammtímahagsmunum orkufyrirtækja og margra annarra: "Tímabært er að rétta hlut náttúruverndar sem farið hefur halloka gagnvart hagsmunum stóriðju", segir í ritinu Áherslur umhverfisráðherra.

Næstur á eftir Þórunni talaði Achim Steiner, forstjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Frábær ræðumaður sem hefur komið víða við í umhverfismálum, m.a. annars í sérstakri World Commission on Dams. Gríðarleg þekking - áheyrilegt en ekki langt erindi, reyndar held ég fullkomlega blaðalaust. Spurningum svarað í stuttu máli.

Eftir hina ágætu tóna sem Þórunn og Steiner byrjuðu á er margt sem væri hægt að rekja hér og nefni ég fáein atriði: Tryggvi Felixson hjá Norrænu ráðherranefndinni ræddi hugtakið "þjónusta náttúrunnar" og Hugi Ólafsson í umhverfisráðuneytinu ræddi þá ábyrgð sem við berum gagnvart náttúrunni af því að svo margt er sérstakt hér. Hann nefndi t.d. að hér væri svo stór hluti álkustofnsins að við bærum sérstaka ábyrgð á henni. Friðrik Dagur Arnarson landfræðingur og lengi landvörður í Mývatnssveit ræddi náttúruverndarpólitík um Mývatnssveit og sýndi frábærar myndir úr sveitinni af náttúru og náttúru í bland við mannlíf; á einni myndinni var sá sem hér skrifar að sýna sonum hans hvernig ætti að umgangast andavarpið SmileJón Ingi Cæsarsson Samfylkingarmaður á Akureyri með meiru flutti erindi um hvað bærinn gerir í umhverfismálum; hið athyglisverðasta í máli hans var sú áhætta sem er tekin með því að staða umhverfismála fer í mörgum sveitarfélögum eftir persónulegum áhuga sveitarstjórnarmanna hverju sinni. Þetta er auðvitað algerlega óþolandi og viðgengst í fáum málaflokkum öðrum. Umhverfismál eru lögboðin mál og samt er þetta því miður alveg rétt hjá honum. Ólafur Páll Jónsson heimspekilektor við Kennaraháskóla Íslands ræddi um hugtökin réttlæti og hagkvæmni og hvort þess væri von að réttlæti næði nokkru sinni sömu hæðum og hagkvæmnin þegar kemur að ákvörðunum sem snerta umhverfið. Mikið af efni þingsins er hægt að nálgast á vefsíðu umhverfisráðuneytisins.

Svo var líka gaman að hitta gamla kunningja, fyrrum vinnufélaga, núverandi baráttufélaga og fólk sem ég hef aldrei hitt fyrr. Mikils virði að hittast og mikils virði að umhverfisráðherra tók róttæka afstöðu MEÐ okkur og MEÐ náttúrunni. Nú að lokum fór ég í Þjóðleikhúsið á hreint ótrúlega áhugavert verk: Hamskiptin í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Hreint augnayndi að upplifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, þetta hefur svo sannarlega verið góður dagur.

María Kristjánsdóttir, 14.10.2007 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband