Hvenær vissirðu að þú værir gagnkynhneigð/ur?

Undanfarna daga hef ég oft heyrt og séð homma og lesbíur spurð að því í fjölmiðlum hvenær hann eða hún vissi um samkynhneigð sína, en ég hef blátt áfram aldrei nokkru sinni séð eða heyrt gagnkynhneigðan einstakling spurðan að því hvenær hann eða hún vissi um sína kynhneigð. Ef spurt væri í eðlilegum hlutföllum ætti maður sennilega að sjá þá spurningu tíu sinnum oftar. Ég hef heldur aldrei heyrt gagnkynhneigt fólk spurt að því hvenær það „hafi komið út úr skápnum" um kynhneigð sína.

Mótun kynhneigðar og merking hennar er flókið fyrirbæri, líffræðilegt sem sálfræðilegt sem félagslegt. Þetta er eitt af þeim málefnum sem skólakerfið hefur ekki sinnt sem skyldi og ekki er minnst á í aðalnámskrám. Þessu þarf að breyta og á því er áhugi, t.d. á Akureyri þar sem haldið var námskeið fyrir kennara á sl. ári. Skólar geta kannski aldrei gert mikið meira heldur en að opna þessa umræðu en þeim er samt ætlað með námsgreininni lífsleikni að kenna unglingum aðferðir til sjálfskoðunar - og kynhneigðin, hver sem hún er, er þýðingarmikill þáttur í mótun sjálfsvitundar. Sennilega hefur kynhneigðin og mótun hennar aldrei verið þýðingarmeiri vegna mikillar umfjöllunar um sambönd um fólks og kynlíf, bæði jákvæð og neikvæð umfjöllun. Mjög margt gagnkynhneigt fólk hefur aldrei farið í gegnum sams konar sjálfskoðun um kynhneigð sína og langanir og margt sam- og tvíkynhneigt fólk hefur þurft að gera. Aukin umfjöllun skólakerfisins um kynhneigð kemur þó öllum góða.

Ég óska öllum til hamingju með gleðigönguna í gær.


mbl.is Mikil þátttaka í Hinsegin dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég skil þig, Ingólfur, út frá þínum gefnu forsendum. En fyrst ein staðreyndavilla hjá þér: "Ef spurt væri í eðlilegum hlutföllum ætti maður sennilega að sjá þá spurningu tíu sinnum oftar" (þ.e. 10 sinnum oftar lagða fyrir gagnkynhneigða en samkynhneigða). En hommar og lesbiur eru EKKI 10% landsmanna, heldur líklega í mesta lagi um 2,8%. -- Í 2. lagi þekkja margir til þess, að sumir samkynhneigðir, einkum konur, hafi talið sig gagnkynhneigð langt fram eftir aldri, en síðan snúizt, á meðan flestir gagnkynhneigðir hafa vitað af kynhneigð sinni frá því að þeir fengu hvolpavitið. Þetta er því ekki sambærilegt. Svo ætla ég rétt að vona, að þið farið ekki að eyða skattpeningum okkar í að kenna unglingum aðferðir til kynferðislegrar "sjálfskoðunar". Hafa kennarar ekki margt þarfara að gera, eða eru þeir allt í einu orðnir sálfræðingar? Eða stendur til, að þið kallið á starfsmenn Samtakanna 78 (launaða af opinberum styrkjum) til að hjálpa þessum krökkum á skammt komnum þroskaferli að "átta sig"? Hafa foreldrafélög farið fram á það við ykkur eða skólayfirvöld?

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 14:09

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Í sambandi við spurningar Jóns Vals um hvað kennarar hafi þarft að gera eða hvort þeir séu orðnir sálfræðingar, þá talaði ég ekki um aðferðir til kynferðislegrar sjálfskoðunar sérstaklega heldur til sjálfskoðunar almennt og að kynhneigð sé partur af því. Þetta er samt frekar árétting á sjónarmiði mínu en leiðrétting á því sem Jón Valur gerir að umtalsefni. Ég geri skarpan greinarmun á kennslu og þerapíu og var að tala um kennslu en ekki þerapíu, kennslu sem þegar best lætur dregur úr þörf á einstaklingsmiðaðri þerapíu.

Tek einnig fram að ég er ekki kennslufræðilegur talsmaður þess að kalla til sérfræðinga eða hagsmunagæsluaðila yfirleitt, allra síst til þess sem ég tel eðlilegan hluta skólastarfsins, þótt svo gestafyrirlestrar geti verið gagnlegir. Ég reyni t.d. að vera fær um það sjálfur að fjalla um kynhneigð í kennslu kennaranema og kennara í framhaldsnámi, m.a. með þekkingu minni í kynjafræðum. Á sama hátt þurfa kennarar í skólakerfinu að vera færir um að takast á við málefni er snerta kynhneigð og vera fordómalausir gagnvart sam- og tvíkynhneigð og öðrum - eða skilja þá eftir heima eins og fagfólk gerir við eigin fordóma ef það veit af þeim. Og efnið getur snert margar námsgreinar, ekki bara lífsleiknina eða líffræðina, líka bókmenntir og sögu svo að fleiri dæmi séu tekin. Helsti vandinn er sá að kynhneigð yfirleitt er eins tabú og í eina tíð mátti helst hvergi tala um hana nema sem kynlíf eða klám.

Að lokum um hlutföll: Það getur vel verið að sam- og tvíkynhneigðir séu ekki 10% þjóðarinnar og í því ljósi hefði málsgreinin alveg mátt hljóða annaðhvort "a.m.k. tíu sinnum oftar" eða "tíu til tuttugu sinnum oftar. Ég held reyndar að rétt tala verði ekki fundin þar sem kynhneigðarmerkimiði á að hanga á fólki eins og á tímum nasista í Þýskalandi. Tíu prósentin eru fengin í gamalli bandarískri rannsókn en ég veit ekki hvaðan 2,8% eru fengin. Ekki viss hvort það skiptir máli hver talan er - aðalatriðið er að losa við fordóma og ranghugmyndir.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 14:44

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki "tíu til tuttugu sinnum oftar," Ingólfur, heldur um 35-40 sinnum oftar, sbr. ýmsar kannanir (langtm nýlegri en þá skeikulu, sem þú nefnir) sem til er vísað í Fréttablaðsgrein minni 'Hversu algeng er samkynhneigð á Íslandi?' -- sjá http://www.kirkju.net/index.php/jon/2005/09/08/p100 -- og í þessari grein á http://www.kirkju.net/index.php/jon/2005/12/29/p133 (sem birtist í Mbl. 23. des. 2005).

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 14:57

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll, Jón Valur, í greininni þinni, sem þú vísar til, talar þú um "virka" samkynhneigða. Nú veit ég ekki með vissu hvað það merkir - gæti merkt þeir sem lýsa því yfir að þeir séu samkynhneigðir. Tel ekki rétt að telja alla aðra en "virka" samkynhneigða vera gagnkynhneigða, eðlilegra að nota sömu skilgreiningu á "virkir" gagnkynhneigðir. Eða hvert var svarhlutfallið í ólíkum könnunum sem þú nefnir? Árétta aftur að ég tel tölurnar ekki skipta máli um aðalefni minnar færslu - það væri auðvitað heppilegra að segja "margfalt oftar" þannig að "tíu sinnum" ruglist ekki saman við talnadeiluna.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 15:32

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég get nú ekki neitað því að mér þykir Jón Valur vera að hengja sig á algjört aukaatriði hvað varðar innihald þessa pistils.

Ingólfur ég er sammála þér að málið er þarft og löngu kominn tími til að efninu sé bætt inn í til dæmis Lífsleikni í skólum.

Jóna Á. Gísladóttir, 12.8.2007 kl. 15:33

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fyrirgefðu, Ingólfur, að ég sló aðeins saman tölum í þessu, enda snöggt svarað hjá mér. Samkynhneigðir eru í raun um 2,2-2,3% íbúafjöldans meðal vestrænna þjóða skv. allmörgum meðaltölum í könnunum (og yfirleitt miðað við, hverjir hafi þá sjálfsmynd að vera samkynhneigðir), þar af lesbíur nál. 1,65% og hommar um 2,6-2,8%. Þetta merkir, að um 45. hver manneskja telst samkynhneigð, en sé miðað við þá einstaklinga, sem lifi virku, samkynja kynlífi, fer talan miklu neðar, eins og sjá má af minni síðarnefndu grein, þ.e.:

http://www.kirkju.net/index.php/jon/2005/12/29/p133

Merkilegt þykir mér að sjá, að Ingólfur, sem er þó mikill og virtur skólamaður, virðist koma alveg af fjöllum, þegar upplýst er hér um þessar hlutfallstölur samkynhneigðra í nútímasamfélögum (kannanirnar, sem vísað er til í greinum mínum, eru tiltölulega ungar, ólíkt þeirri, sem Ingólfur treysti á). Hann sagði hér sjálfur: "Ég reyni t.d. að vera fær um það sjálfur að fjalla um kynhneigð í kennslu kennaranema og kennara í framhaldsnámi, m.a. með þekkingu minni í kynjafræðum," en eitthvað finnst mér á vanta í þekkingu grunnatriða á því sviði, þegar hann þarf á mínum ábendingum að halda til að rétta af alvarlegan (margfaldan) staðreyndahalla í upplýsingum sínum.

Með góðri kveðju til hans og Jónu, sem virðist eiga erfitt með að sjá eðlismuninn á stærðunum 10X og 45X.

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 18:44

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Það er nú svo, Jón Valur, að hvorki bloggið né athugasemdirnar eru fræðigreinar, okkur getur misminnt um tölur og við getum misskilið hvor annan. Árétta því í þriðja sinn að "sennilega ... tíu sinnum" í upphaflegri færslu er ekki fullyrðing um að hommar og lesbíur séu tíu prósent þjóðarinnar og því hvorki rétt né röng staðreynd heldur orðatiltæki sem ég myndi breyta í "mörgum sinnum oftar" ef ekki væri kominn svo langur þráður um þetta. Skil vel að þú hafir hrokkið við þegar þú sást tíu sinnum af því þú hefur eytt svo miklum tíma í að hrekja 10 prósentin úr Kinseyskýrslunni, sem ég ætla mér ekki að verja sérstaklega.

Hið íróníska í þessum litla debatt okkar er þó samt að ef fjöldatölur þínar eru hinar réttu undirstrikar það enn þá rækilegar það sem ég spurði um í fyrirsögn færslunnar!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 20:15

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki fæ ég nú séð, að það árétti það, Ingólfur, a.m.k. náði ég ekki rökstuðningum fyrir því.

Svo láðist þér að svara lokaspurningunni í 1. innleggi mínu: Hafa einhver foreldrafélög farið fram á það við ykkur kennara eða skólayfirvöld að kenna unglingum aðferðir til kynferðislegrar "sjálfskoðunar"?

Gangi þér og ykkur vel að fara þá leið, sem sniðgengur ekki foreldravaldið og leggur ekki á nemendur óþarfa áhyggjur af því, sem náttúran nægir þeim oftast nær að finna út sjálf.

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 20:56

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Jón Valur: Í fyrsta svari mínu leiðrétti ég misskilning þinn. Í færslunni minni talaði ég ekki um aðferðir til kynferðislegrar sjálfskoðunar sérstaklega heldur til sjálfskoðunar almennt og að kynhneigð sé partur af því. Spurningin þín er byggð á þessum misskilningi og því láðist mér ekki að svara henni og get ekki svarað henni, fyrir utan að minn vinnurstaður er ekki í beinum samskiptum við foreldrafélög. Foreldrafélög hafa þó sýnt áhuga á kynjafræðilegum málefnum, það get ég vitnað um. Og ég veit að margir foreldrar eru sama sinnis og Jóna nefnir hér að ofan um mikilvægi fræðslu um kynhneigð.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 21:20

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er þó enginn misskilningur hjá mér, Ingólfur, að um þessar mundir eru vissir baráttumenn að stefna að beinum áhrifum á skólabörn/unglinga, sem áróðurskeimur virðist af og takmörkuð hlutlægni við kynningu á samkynhneigð og kynlífi samkynhneigðra. Það er sömuleiðis staðreynd, að þar sem hafið var prógramm í þá átt að færa meinta fræðslu um samkynhneigð inn í skóla á Akureyri, var sniðgengið að bera málið fyrst undir foreldrafund eða foreldrafélög til að leyfa þeim að hafa sitt að segja um það, hvort taka bæri upp slíka 'fræðslu'. Þú leysir ekki þennan rökræðuvanda þinn með almennum, hálf-loðnum setningum (eða opnum, hvað merkingu varðar, gefandi í skyn, að kannski séu foreldrafélög með þessu 'átaki' sumra skólamanna) eins og þessum tveimur í lokin (kl. 21.20); og vitnisburður Jónu hér ofar hefur auðvitað ekkert að segja á móti allri vöntuninni á því að leyfa foreldrum almennt og foreldrafundum/félögum að hafa sitt að segja um það, á hverju börn þeirra verði 'frædd' í skólanum, þegar komið er út í svona umdeilt málefni.

Svo hef ég ekki fengið nein viðhlítandi svör hér ofar varðandi undarlega vanþekkingu þína á tíðni samkynhneigðar. Ég vona bara, að þú sért ekki einn þeirra, sem láta sveigjast af þrýstingi og pólitískum 'rétttrúnaði' í þessum málum til að láta frekar mata þig og/eða berast með straumnum en að kynna þér sjálfur þessi mál í grunninn, út frá traustum rannsóknum og greinum, eins og ég hef þó gert.

Með góðum óskum til þín og allra kennara, en ekki síður til foreldra og umfram allt til nemenda á yngri skólastigum,

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 22:26

11 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hafðu engar áhyggjur af því, Jón, að ég láti mata mig eða berist með straumnum eða sveigist af þrýstingi en kynni mér ekki málin. Áður en ég kveð þig og býð þér góða nótt, þá bendi ég þér og öðrum lesendum á skýrslu forsætisráðuneytisins um málefnið ; þar er m.a. talað um nauðsyn þess að setja ákvæði um fræðslu um samkynhneigð í námskrár. Skýrslan fjallar þó ekki síður um margvíslega mismunun sem samkynhneigt fólk býr við kynhneigðar sinnar vegna. Skólakerfinu ber og að taka þátt í að vinna gegn fordómum gagnvart hommum og lesbíum. Bendi þér einnig á bók mína, Karlmennska og jafnréttisuppeldi, ef þú þekkir hana ekki; þar er nokkuð fjallað um fyrirbrigðið gagnkynhneigðarrembu (heterosexism) sem felst einkum í að telja gagnkynhneigð yfir aðra kynhneigð hafna. Þakka þér svo fyrir spjallið og góða nótt.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 23:00

12 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Og til að valdi ekki misskilningi vil ég reyndar ekki að samkynhneigð sé tekin sérstaklega fyrir í skólum heldur verði fyrirbrigðið eða hugtakið kynhneigð tekin fyrir, því slík umfjöllun snertir alla einstaklinga, sbr. t.d. bls. 143-144 í fyrrnefndri bók, Karlmennska og jafnréttisuppeldi. Ef aftur á móti er farið forvarnafræðslu um fordóma og mismunun þá þarf að taka á fordómum gagnvart samkynhneigð og mismunun gagnvart samkynhneigðu fólki.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.8.2007 kl. 23:23

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér ábendinguna á þessa bók þína, sem ég þekkti ekki, Ingólfur. En varðandi "gagnkynhneigðarrembuna", sem þú skilgreinir þannig: "sem felst einkum í að telja gagnkynhneigð yfir aðra kynhneigð hafna," þá má kannski gera þá athugasemd, að jafnvel þótt menn eigi ekki að telja sjálfa sig yfir aðra menn hafna, þá hefur gagnkynhneigð þó alltjent eitthvað (og það fleira en eitt) fram yfir samkynhneigð; vart dylst þér það, Ingólfur.

Einnig bentirðu á skýrslu forsætisráðuneytisins, en sá kafli þar (aftarlega), sem fjallaði fræðslu um samkynhneigð í skólakerfinu (eða öllu heldur áform um hana), fannst mér einn af þeim ískyggilegri í ritinu, en vita mátti ég, að þeir róttæku myndu keyra á það mál eins og önnur -- fráleitt var að telja þá kafla orðin tóm og því meinlausa. En eins og þú átt að vita, voru a.m.k. 2 af sex meðlimum þessarar stjórnarráðsskipuðu nefndar samkynhneigðir, og þeirra viðhorf fengu afar mikið vægi víða í þessu riti. Það er borin von fyrir þig að vitna í þá opinberu skýrslu og búast við, að ég hneigi mig af virðingu fyrir þeim vinnubrögðum sem þar má svo víða greina. Ritið er að drjúgu leyti pólitík, þótt verkefnið eigi að heita fræðilegt í grunninn, sem það vissulega er að sumu leyti, en hörmulega langt frá því að ýmsu öðru leyti og það í veigamiklum þáttum þess, sem haft hafa og hafa munu óæskileg áhrif.

Þakka þér annars fyrir ágæta umræðuna. Vil bara bæta við í lokin, að þótt ég hafi vart svarað 1. klausu þinni kl. 14:44, þá fannst mér þú svara mér þar með faglegum hætti, sem virða ber að fullu. Hins vegar hafði ég ekki (í 1. innleggi mínu, kl. 14:09) verið að gera því skóna, að stefnt væri að því, að kennarar færu inn á þerapíu-verksvið sálfræðinga (sem hlýtur a.m.k. að hluta að fela í sér einstaklingsmeðferð), heldur átti ég við, að mér sýnist umfjöllun um þetta mál gera meiri kröfu til sálfræðilegrar innsýnar kennarans í þetta kynferðislega tilfinningasvið en mér þykir hægt að ætlast til af kennurum almennt; þar að auki óttast ég hlutdræga innrætingu og nánast normatíf, pro-homosexualísk viðhorf, sem hvorki séu affarasæl til 'fræðslu' né í takt við það, sem ætla megi að meirihluti foreldra hinna ca. 97-98% gagnkynhneigðu nemenda óski eftir þeim til handa. Þetta verður ekki bara fræðsla til að vinna gegn fordómum og mismunun, heldur sennilega að auki viðhorfskennsla um, að samkynhneigð sé engu síður en gagnkynhneigð jákvæður og gefandi valkostur fyrir samfélagið, og sumar afleiðingar þessa o.fl. hluta geta orðið þær, að ungt fólk fari að "prófa sig áfram með" kynlíf, sem það festist í, en hefði ella ekki gert. Ytri og innri ástæður, t.d. feimni mjög margra stráka við hitt kynið, geta svo stuðlað að þessu líka, en um lítt eftirsóknarverð fylgiáhrif þess gætum við svo rætt í lengra máli. En málið er ekki sízt þetta, að menn eru að stefna út í róttækar breytingar án þess að hafa í raun viðhlítandi rannsóknargrundvöll eða reynslufræði (sem spanni yfir nógu langan tíma) til að geta treyst því, að afleiðingarnar verði farsælar fyrir samfélagið og einstaklingana.

Jón Valur Jensson, 13.8.2007 kl. 01:53

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ja hérna hér

Jóna Á. Gísladóttir, 14.8.2007 kl. 01:27

15 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Á ég að vita að "a.m.k. 2 af sex meðlimum þessarar stjórnarráðsskipuðu nefndar [eru] samkynhneigðir ..."? Nei, það á ég ekki að vita. Í nefndinni var einn fulltrúi Samtakanna 78 - hitt eru fulltrúar ýmissa ráðuneyta og hver kynhneigð þeirra skiptir engu máli ef þeir hafa þekkingu á málefninu. Á Íslandi hangir kynhneigðarmerkimiði ekki á fólki eins og á dögum nasista í Þýskalandi. Það er gott. Hér er líkast til við hæfi að nota slagorð samtaka fatlaðra: Ekkert um okkur - án okkar. Gott að Samtökin 78 fengu að tilnefna fulltrúa. Gott að ríkisstjórnin ákvað að gera skýrsluna. Hlakka til að lesa hana rækilegar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.8.2007 kl. 11:27

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég gerði ráð fyrir, að þú vissir þetta, Ingólfur, fróður og vel menntaður maðurinn. En þetta kom t.d. fram í þessari vefgrein minni 29. marz sl. og fleira þar, sem að því lýtur, hve alvarlega skekkt mynd fekkst í áliti þeirrar ráðherraskipuðu nefndar vegna þessa og þó ekki sízt af þeirri ástæðu, að þrýstihópar samkynhneigðra og baráttuvina þeirra fengu því framgengt, að um einhver alvarlegustu kröfugerðarmál þeirra róttækustu ákvað ríkisstjórnin eða leiðandi menn þar að fylgja séráliti þriggja manna í þessari sex manna nefnd, og af þeim þremur voru ekki færri en tveir samkynhneigðir!

Þetta finnst þér, Ingólfur, greinilega hið ágætasta mál, en telur þú eðlilegt, að fulltrúar úr hópi 2,3% þjóðarinnar hafi úrslitaáhrif um svo alvarleg mál? "Ekkert um okkur án okkar," segja fatlaðir, en það er ekki það sama og að gera fulltrúa 2,3% að 66,67% meðlima í nefndarhluta, sem síðan er gefið æðsta ráðgefandi vald og það gegn ráðum helmings allrar 6 manna nefndarinnar. Þar að auki var þarna alls ekki einfaldlega um þær ákvarðanir að ræða sem varða muni einungis samkynhneigða, því að þær snerta einnig uppvaxandi kynslóð (langflest þau börn gagnkynhneigð), bæði í skólakerfinu og þau börn sem stendur til, að hommum og lesbíum verði færð í kjölfar tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar. Þessir samkynhneigðu fulltrúar í nefndinni voru því ekki aðeins að vinna að undirbúningi lögggjafar um eigið líf og annarra samkynhneigðra, heldur einnig fjölda annarra í þjóðfélaginu.

Setning þín: "Á Íslandi hangir kynhneigðarmerkimiði ekki á fólki eins og á dögum nasista í Þýskalandi," þykir mér heldur ósæmileg í þessu sambandi og svarar ekki málefnagagnrýni minni á þetta ráðslag hér og annars staðar. Ljótt verður líka að teljast, ef einhverjir túlka þessi orð þín þannig, að þú sért að smyrja á mig þeim áburði að vilja marka fólk til að ofsækja það. Það er víðs fjarri mér, og með því að mæla á móti nánast alræðisvaldi hörðustu baráttumanna í þessum kynhverfu-málefnum er ég óraveg frá slíkri brennimerkingarstarfsemi á hendur ofsóttum hópi.

"... hver kynhneigð þeirra er skiptir engu máli ef þeir hafa þekkingu á málefninu," segirðu þarna, en hvernig veiztu, að þeir hafi haft viðhlítandi og vísindalega þekkingu á því, sem og þá óhlutdrægu hlutlægni til að bera, sem nauðsynleg er í slíku starfi? Gat félagsmálaráðherra, sem skipaði viðkomandi nefndarkonu úr því ráðuneyti, dæmt um það, var ráðherrann sérfróður í því efni? Vitaskuld ekki. Manneskja með bein hagsmunatengsl var skipuð í nefndina til viðbótar við fulltrúa Samtakanna 78. Þannig er auðvelt að skekkja sýn einnar nefndar, hvað þá heldur að stuðla að því að fá hlutdræga niðurstöðu, þegar margípotaður og staðfestuslappur ríkisstjórnarhópur lætur undan þrýstingi og velur álit hinna róttækustu sem sína stefnuskrá til lagasetningar. (Þetta eru ekki innantóm orð; fyrir hendi eru útvarpaðar uppl. um, að smá-baráttuhópur hélt uppi stífum hringingum til Halldórs Ásgrímssonar o.fl. með áskorunum um að þeir létu róttæka nefndarálitið ráða úrslitum.)

Að endingu finnst mér háalvarlegt mál, að þið skólamenn vinnið ekki ykkar rannsóknir þessum málum viðvíkjandi betur en svo, að hinir beztu ykkar standa jafnvel á gati, þegar rætt er um grunnstaðreyndir eins og þær sem ég hef upplýst hér um, en þú virðist aldrei hafa heyrt.

Gangi ykkur þeim mun betur í framhaldinu, verð ég að segja að lokum.

Jón Valur Jensson, 15.8.2007 kl. 02:05

17 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Góðan dag, Jón Valur, og aðrir lesendur. Það er bersýnilegt, Jón, að þú ert áhugasamari um kynhneigð fólks en ég. Mér finnst vænt um að sjá þú vilt ekki "marka fólk til að ofsækja það" - ég bjóst svo sem ekki við því. Sem betur fer geta flestir Íslendingar í dag lýst yfir kynhneigð sinni, ef þeir svo kjósa, án þess að verða fyrir ofsóknum eða þurfa að flýja land. En samt má fólk búast við því að fagmennska þess sé dregin í efa af þeim völdum og það finnst mér þú gera í greininni sem þú vísar í. Og að lokum, af því að nokkrum sinnum í færslunum ávarpar þú mig, Jón, í fleirtölu: Þá eru bloggskrif mín á mínum vegum, á mína ábyrgð, nema einhvers sé eitthvað annað tekið fram um eitthvert sjónarmið eða ályktun sem ég birti.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.8.2007 kl. 07:27

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heil og sæl öll og góðan daginn. Stutt fannst mér svar þitt, Ásgeir, og sáralítið nema í eftirfarandi setningu farið út í efnisleg svör: "En samt má fólk búast við því að fagmennska þess sé dregin í efa af þeim völdum [þ.e. af þeirri ástæðu, að fólk hafi lýst yfir samkynhneigð sinni, <i>innskot JVJ.</i>] og það finnst mér þú gera í greininni sem þú vísar í." -- En þetta er spurning um hlutlægni, óhlutdrægni og/eða bein hagsmunatengsl, Ásgeir. Engu hefurðu svarað um þá staðreynd, að ríkisstjórnin lét hálfa nefnd tveggja samkynhneigðra og einnar persónu í viðbót (hverrar kynhneigð ég veit ekkert um) ráða öllu um afar afdrifaríka lagasetningu, sem varðar ekki aðeins homma og lesbíur, heldur gagnkynhneigð börn og unglinga líka. Þar að auki var annar þessara tveggja samkynhneigðu fulltrúa gamalreyndur baráttumaður af vettvangnum og hefur t.d. í einni Morgunblaðsgrein minni verið afhjúpaður fyrir áróðurskennd rangmæli um fjölda samkynhneigðra á Íslandi, án þess að hann hafi komið neinum vörnum við þá né síðar. Sjá hér: http://www.kirkju.net/index.php/jon/2005/09/08/p100 Svo finnst mér þessi athugasemd dálítið þreytt og slitin og í raun ósæmandi, þegar þú segir: "Það er bersýnilegt, Jón, að þú ert áhugasamari um kynhneigð fólks en ég." Þetta sýnist mér af <i>ad hominem</i>-taginu, jafnvel í ætt við neðanbeltishögg (þú veizt ég er ættfræðingur líka) ... Nú er nýliðin baráttuvika þar sem baráttuforkólfar kröfumála fyrir samkynhneigða settu þá kynhneigð, stoltið yfir henni o.s.frv. mjög á oddinn, og þá var nú ekki verið að tala á þeim nótum sem þú gerir hér. En undirliggjandi umþenking mín (&#39;my concern&#39;) í þessu máli er ekki kynhneigðar-áhugi, heldur áhyggjur af afleiðingum þeirrar kröfugerðar baráttuforkólfanna, sem virðist ganga lengra í bæði róttækni og ávinningi í þessu landi en flestum eða öllum öðrum og þrengir t.d. mjög að þjóðfélagslega óháðri stöðu Þjóðkirkjunnar (og síðan ugglaust annarra kirkna) í kenningar- og helgisiðamálum. Ennfremur hef ég fræðzt nógsamlega um þessi mál til að átta mig á því, að allt of litlar rannsóknir (og skammæjar hvað tíma-yfirgrip varðar) hafa farið fram á áhrifum og afleiðingum þeirra breytinga á fjölskyldugerð og uppeldi, sem nú er keyrt á að koma í gagnið af yfirvöldum hérlendis. Sjá t.d. þessa Morgunblaðsgrein mína:  http://www.kirkju.net/index.php/jon/2006/05/06/p445 Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 15.8.2007 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband