Agriculture is necessary for the farmer as a consumer

(Á íslensku þýðir þetta að landbúnaður sé nauðsynlegur fyrir bóndann sem neytanda.) Ég man eftir þessu á póstkorti sem Smekkleysa gaf út fyrir rúmum 20 árum. Á póstkortinu, sem ég hef nú týnt, var maður í fremur ljótri lopapeysu með sneisafulla innkaupakerru í þá nýlega opnaðri Kringlunni í Reykjavík.

Þessi brandari rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sat ráðstefnu um rannsóknina Litróf landbúnaðarins þann 14. september sl. Þar sögðu þau Anna Karlsdóttir, Karl Benediktsson og Magnfríður Júlíusdóttir, landfræðingar við Háskóla Íslands, frá viðamikilli rannsókn á stöðu landbúnaðar og högum bænda. Á ráðstefnunni kom fjölmargt fram sem of langt mál yrði upp að telja, ekki síst að mjög stór hluti bænda vinnur aðra vinnu en við búskapinn hvort heldur litið er á hinar hefðbundnu greinar búskap með sauðfé og kýr eða á nýrri greinar, svo sem ferðaþjónustu sem er orðin útbreidd.

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um mikilvægi landbúnaðar fyrir samfélagið, ekki síst með tilliti til matvælaöryggis okkar sem eyþjóðar langt úti í hafi. Samt heyri ég alltaf öðru hverju raddir sem gagnrýna stuðning við landbúnað sem atvinnugrein, þótt þær séu svo sem engu háværari nú en ég var að alast upp í Mývatnssveit á sjöunda áratug síðustu aldar og kratar réðu viðskiptaráðuneytinu. Stuðningurinn er auðvitað byggður á því að hér gætum við ekki lifað án landbúnaðar. Á nefndri ráðstefnu fór finnsk fræðikona, Hilkka Vihanen, nokkrum orðum um breytingar á finnskum landbúnaði eftir að Finnland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Það var fróðlegt að heyra. En í allri þessari umræðu skulum við samt muna það sem Smekkleysa gerði heyrum kunnugt að landbúnaður ekki er bara mikilvægur fyrir okkur sem búum í þéttbýlinu: Fyrst og síðast hlýtur landbúnaður að vera mikilvægur fyrir bóndann til tekjuöflunar. Því er það umhugsunarvert ef bændur þurfa að hafa lifibrauð sitt af öðru en bústörfum.


mbl.is Metframleiðsla á mjólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband