Hreint til verks? En með óhreint fyrir dyrum í náttúruvernd

Úr frétt frá Náttúruverndarsamtökum Íslands:

Til að gylla kosningaloforð sín um tvö ný álver hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins reynt að gera sem mest úr fjölda afleiddra starfa en þagað þunnu hljóði yfir umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda sem samsvara tveimur nýjum Kárahnjúkavirkjunum að afli. Virkjanir fyrir álver í Helguvík og á Bakka.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson fullyrti í kosningaþætti Rikissjónvarpsins þann 8. apríl að þau störf sem fylgja tveimur nýjum álverum og „... afleidd áhrif, skipta þúsundum, skipta þúsundum." Í kosningaauglýsingum Sjálfstæðisflokksins er fullyrt að um sé að ræða 6000 afleidd störf.

Þessar tölur Sjálfstæðisflokksins eru mun hærri en annars staðar þekkist. Áhrif álvers á atvinnu í byggðarlagi gætu verið nokkur, t.d. er ekki ólíklegt að um 1000 ný störf tengist álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði þegar allt er talið (þar með taldir þeir sem vinna í álverinu). Á hinn bóginn eru ruðningsáhrif álvers Fjarðaáls einnig umtalsverð.

Álver skapa fá störf og því hafa ráðamenn lagt áherslu á svo kölluð afleidd störf. Áhrif álvera á atvinnustig/atvinnuleysi eru þó engin þegar til lengdar lætur. Um það ku ekki vera nokkrar deilur meðal hagfræðinga. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins verða að að skýra þessi efnahagsundur sín betur.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu að Sjálfstæðisflokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi kjósendur um hvaða orkulindir flokkurinn vill að virkjaðar verði til að knýja tvö ný álver. Vill Sjálfstæðisflokkurinn að Skjálfandafljót eða Jökulvötnin í Skagafirði verði virkjuð? Vill Sjálfstæðisflokkurinn að virkjað verði í Krísuvík, Austurengjum og Eldvörpum?

Ég tek undir gagnrýni Náttúruverndarsamtakanna - Sjálfstæðisflokkurinn verðu að skýra mál sitt betur og svara því hvað hann ætlar að virkja. Það þýðir ekki að halda því fram að það verði byggð tvö ný álver og engu af því fórnað sem hér er nefnt - og kannski verður meiru fórnað en okkur dettur í hug í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvers konar vinnubrögð eru eiginlega í gangi í þessu Helguíkur dæmi? Mér hefur skilist að þarna sé búið að eyða 12 milljörðum í undirbúningsvinnu. Engin niðurstaða í orkuöflun önnur en einhverjar viljayfirlýsingar frá OS og OR um sölu á orku. Hvaða verð eru í boði fyrir orkuna? Hvaða trygging fyrir fjármagni og á hvaða vöxtum?

Hvað kostar hvert starf og hver hefur skoðað aðrar leiðir í atvinnusköpun fyrir þá fjármuni sem þetta kostar? Og hvað um mengunarkvóta fyrir þessa starfsemi?

Getur einhver bent á önnur dæmi um hringavitleysu á borð við þetta andskotans stóriðjubrjálæði íslenskra stjórnvalda?

Árni Gunnarsson, 21.4.2009 kl. 12:31

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið og ábendingarnar, Árni

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.4.2009 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband