Fleinn í Vatnajökulsþjóðgarði

Í framtíðinni verður Hálslón eins og fleinn inn í Vatnajökulsþjóðgarð, sorglegur vitnisburður um skammsýni stjórnmálamanna um tíaldamótin 2000. Ef áform ganga eftir verður þjóðgarðurinn þó stærsti þjóðgarður í Evrópu. Fyrst í stað mun hann einkum ná til jökulhettunnar en vonir standa til að Jökulsá á Fjöllum og bakkar hennar til sjávar muni einnig verða hluti þjóðgarðsins við stofnun hans, auk nokkurra landsvæða sem liggja að jöklinum hér og þar á hálendinu. Samstaða virðist meðal stjórnmálaflokka um að veita fé í uppbygginguna sem er áætluð að kosti á annan milljarð. Í framtíðinni þarf hann að stækka þjóðgarðinn mikið þannig að hann nái til alls þess svæðis sem jökulinn hefur haft áhrif á, þar með talið allt Ódáðahraun og vestur fyrir Skjálfandafljót, auk Skeiðarársands og mestalls hálendis í Skaftafells- og Múlasýslum og nokkurs hluta hálendis Rangárvallasýslu. Stefna af þessu tæi liggur fyrir - en fyrst þurfa stjórnvöld að tryggja rekstrargrundvöll þjóðgarðsins þannig að verkefnið njóti trausts þess fólks sem býr norðan, austan og sunnan jökuls. Eitt af því sem á að gera er að byggja gestastofur á fjórum stöðum auk þeirra sem fyrir eru í Skaftafelli og Ásbyrgi. Viðbót: Önnur uppbygging eru landvörslustöðvar og styrking þjónustustöðva sem þegar eru fyrir hendi - að ógleymdum göngustígum, merktum gönguleiðum, einhverjum göngubrúm og endurbótum á akstursleiðum inn í þjóðgarðinn.

Ekki má svo láta staðar numið: Við þurfum að móta skýra stefnu um nýtingu á vesturhluta hálendisins, áður en rokið er í einstakar framkvæmdir. Eitt af því er mótun stefnu um vegi og hefur Landvernd m.a. útbúið skýrslu um það efni. Látum ekki fleiri slíka fleina stingast inn í "hold" hálendisins, hvorki uppbyggða vegi né virkjanir.


mbl.is Hálslón orðið 40 ferkílómetrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Davíðsson

Af hverju flytur þú bara ekki til Grænlands? Þar eru ósnorin víðerni fyrir þá sem þau vilja.

Kárahnjúkavirkjun er stórfenglegt mannvirki sem mun bera stórhug okkar vitni um langa framtíð. Ég verð einn þeirra sem skoða svæðið með lotningu fyrir bæði náttúru og verkum mannanna. Af hverju í ósköpunum getur þetta tvennt ekki farið saman?

Björn Davíðsson, 24.7.2007 kl. 09:30

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Björn: Við erum ósammála um að Kárahnjúkavirkjun fari saman við landið - hún ER samt fleinn í Vatnajökulsþjóðgarði ef litið er á landakort og náttúrufar. Ég kann engan veginn að meta ráðleggingar til mín um að flytja af landi brott en hef ákveðið að taka þetta sem ráðleggingu til að ferðast til Grænlands. Ég vona að landinu verði stjórnað þannig á næstunni að ég geti búið hér sem virkur þátttakandi í samfélaginu og mótun. Starf mitt að náttúruverndarmálum er hluti af þeirri viðleitni. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er líka viðleitni í því að auka atvinnu af náttúruvernd allt í kringum jökulinn, og það er góð vinna, og ég tala af reynslu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.7.2007 kl. 10:00

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það þarf nú ekki nema svona eitt sæmilegt gos til að lónið fyllist, þangað til ættu menn að læra að nýta og njóta.

Pirrar mig þónokkuð, þegar sama liðið og heimtar tvöföldun á vegum, betri flugvelli, auðveldari samgöngur og hvaðeina, vilja svo ekki leyfa að taka möl úr nokkru fjalli og væla um óafturkræft þetta og hitt.

Skelfilega hvimleitt nöldur.

Það er ekki vilji nokkurs manns, að ganga meir á náttúru landsins, en þarf til að þjóðinni líði bærilega í sátt við umhverfið.

Þið talið um fulltrúa þjóðarinnar með slíkri fyrirlitnigu, að nær ekki nokkru tali.

Setjið ykkur í spor þeirra á Austfjörðum, sem voru nánast búnir að gefa upp alla von um, að nokkuð gerðit og fyrrverandi ráðherrar, hlupu um allar koppagrundir til að fá fyrirtæki í samstarf þarna systra. ´Nú þegar allt er á uppleið þarna, væla menn, sérstaklega á vinstri vængnum, hvar Iðnaðarráðherrar fóru hvað mestar sneypufarir til Noregs og víaðr til samninga um Álver.

Fussum svei.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 24.7.2007 kl. 15:16

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þú fussar; Bjarni. Ekki vilji nokkurs manns "að ganga meir á náttúru landsins, en þarf til að þjóðinni líði bærilega í sátt við umhverfið"? Sáttin við umhverfið er ekki til staðar fremur en sátt meðal þjóðarinnar. Ef þetta er rétt er samt sumum alveg sama hvernig þeir böðlast um og hvað þeir taka, bara ef þeir geta selt eða fengið rafmagn. Það er ekki hverju sem er fórnandi fyrir álgróða Alcoa - eða hvað? 

Þú ávarpar "okkur"? Hver? En það er ljóst að ég ber af mér að vera "lið" sem heimtar tvöfalda vegi og ég ber það líka af mér að "væla" og "nöldra". Er málefnaleg umræða eða gagnrýni væl og nöldur? Er spjall þitt á blogginu slíkt væl og nöldur? Ég er ekki viss um að mér finnist það þótt við séum bersýnilega ósammála um hvenær gengið er um of á landið.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.7.2007 kl. 16:30

5 identicon

Merkileg viðbrögð við blogginu um það hvernig Hálslón mun skera sig úr á svæði sem er að stærstum hluta án mikilla ummerkja eftir athafnir manna. Sumum þykir víst lítið varið í náttúruna nema einhver afrek mannanna "skreyti" hana.

Sú fjölbreytta náttúra sem hverfur í lónið og þau áhrif sem virkjunin hefur á útlit umhverfisins á svæðinu eru ekki til þess fallin að auka gildi þess, heldur þvert á móti að draga úr upplifun manna, skaða lífríki og spilla ímynd þess sem náttúrulegs svæðis þar sem náttúran fær að þróast eftir eigin lögmálum. En fjölbreytt svæði þar sem náttúran fær í stærstum dráttum að vera  í friði fyrir ágangi manna eru af vaxandi fjölda manna talin til mikilvægra auðlinda og ímyndin stórverðmæti. Í heimi þar sem stöðugt fleiri búa í þéttbýli og skarar fólks sjá sjaldan annað en manngert umhverfi mun hin óspillta náttúra stöðugt verða verðmætari.

Það er gleðilegt að uppgangur skuli vera á Austurlandi en sorglegt hann skuli keyptur því verði sem raun ber vitni. Það er þjóðarböl að þjóðin skyldi þurfa að sitja uppi með stjórnvöld sem ekkert höfðu að bjóða fólkinu út um land annað en loforð og síðan virkjun og verksmiðju sem spillir landinu þeirra og okkar allra hinna. Þar eru á ferð miklir peningar sem margt annað og betra hefði verið hægt að gera fyrir. Þó Austfirðingar hefðu "bara" fengið eitthvað af öllum milljörðunum sem notaðir voru til undirbúnings og til að liðka fyrir samningum (orðalag frá yfirvöldum) fyrir austan þá hefðu þeir geta gert ýmislegt sjálfir í stað þess að þurfa að sitja undir Stalínískri lausn Sjálfstæðis og Framsóknar í atvinnumálum. Til þess voru íbúar Austurlands fullfærir, hefði þeim verið sköpuð skilyrði til þess.

Friðrik Dagur Arnarson 24.7.2007 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband