Alaskalúpína og skógarkerfillinn

Íslensk náttúra hefur eignast góða liðsmanneskju í umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sem bað helstu fagstofnanir á sviði náttúrufræða og landgræðslu að leggja fram tillögur um hvernig standa skyldi að því að hefta útbreiðslu á ágengum framandi tegundum, eins og er tækniheitið yfir það sem kalla má ránplöntur á kjarnyrtri íslensku. Reyndar eru orðin ágengur og framandi alls ekki nein tækniheiti heldur tilraun til að segja hlutlaust frá eiginleikum plantnanna. Vandinn er nefnilega sá að lúpínan er æskileg á vissum svæðum í meðförum fagfólks - rétt eins og vissar tegundir af eitri eru réttlætanlegar í meðförum þjálfaðra meindýraeyða en eiga alls ekkert erindi í hendurnar á mér og þér, rétt eins og fjöldinn allur af lyfjum yrði stórskaðlegur ef aðrir en læknar ávísuðu þeim til þeirra sem þurfa á þeim að halda. En í höndunum á ákafafólki við landgræðslu þá veldur hún þeim spjöllum á landinu sem eru ljós. Ef til vill er versta hneykslið lúpína í Morsárdal við Skaftafell í Vatnajökulsþjóðgarði - en dæmin eru út um allt. Lúpínan er t.d. víða í Reykjavík, jafnvel þótt á stundum hafi verið unnið starf við að hefta útbreiðsluna. En ég veit ekki um nein not af skógarkerflinum sem freistar þess nú að leggja undir sig Hrísey og hefur unnið stór spjöll í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Tillögur Náttúrufræðistofnunar og Landgræðslunnar fela meðal annars í sér:

  • Alaskalúpína verði bara notuð á skilgreindum landgræðslu- og ræktunarsvæðum
  • Alaskalúpína og skógarkerfill verði upprætt á svæðum ofan 400 metra hæðar, í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum.
  • Takmarkað verði tjón af völdum alaskalúpínu og skógarkerfils í íslenskri náttúru
  • Kostir lúpínu við landgræðslu á rýrum svæðum.

Sjá meira á: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1622


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég er reyndar mjög efins um að nota skuli þetta illgresi á skilgreindum- og ræktunarsvæðum. Það eru aðrar leiðir til sem geta skilað svipuðum árangri. Það ætti því að banna notkun hennar með öllu.

Ég þekki til, þar sem voru berir melar innan um þokkaleg holt og börð. Í þesumm holtum var þéttur og góður birkiskógur, þegar fór að hlýna samfara minni beit á þessu svæði fór birkið að skríða út af holtunum og skjóta upp græðlingum út á melunum. Það var frábært að fylgjast með þessu.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að planta þarna lúpínu, væntanlega í samráði við landgræðsluna. Nú er hún búin að þekja allann melinn, drepa litlu græðlingana og er farinn að ryðja skóginum á undan sér. Ef fram fer sem horfir verður þarna stórt svæði lúpínu og enginn annar gróður.

Þessi melur var ekki fyrir neinum, ekki var sandfok af honum og þessi fáu rofbörð sem á voru svæðinu, voru að mestu orðin gróin og lokuð af gróðri. Það var því engin ástæða til að planta lúpínu þarna.

Það eru sjálfsagt mörg svona dæmi til, því óttast ég að ef ekki verði algjört bann við notkun á lúpínu, eigum við eftir að sjá þau fleiri.

Gunnar Heiðarsson, 10.4.2010 kl. 10:32

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Í rauninni tek ég undir með þér, Gunnar. Birkið er miklu skemmtilegri landgræðslujurt. Og jú, má ekki tengja græðgina sem olli bankahruninu við græðgina við ofurlandgræðslu með "aðstoð" lúpínunnar? - Spáum í það hvort við getum notað meira hægfara jurtir sem eru eðlilegar í landinu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.4.2010 kl. 10:46

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Bæti við að það skiptir líklega öllu að landgræðslusvæði verði skilgreind þröngt í þessum efnum, það er að lúpína fari eingöngu í miðjuna á stórum, gróðurlausum svæðum

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.4.2010 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband