Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Hæfi og vanhæfi, hæfni og vanhæfni

Krafan um að þeir sem semji um þetta mál skilji ensku vel er auðvitað algerlega réttmæt. En þótt Þór Saari sé tvítyngdur hefði hann átt að fletta upp í Ensk-íslensku orðabókinni áður en sagði frá því að hann hefði aldrei heyrt orðið fræga, subrogate. Þar er tiltölulega einföld útskýring á orðinu, skiljanleg, þess efnis að ef ábyrgðarmaður greiðir skuld til kröfuhafa öðlist hann réttindi kröfuhafa gagnvart skuldaranum. Til samanburðar má nefna að ég tel mig nokkuð góðan í mínu eina móðurmáli, íslensku, en vildi ekki án íslenskra orðabóka vera því að það eru mörg blæbrigði málsins sem er gott að geta rannsakað betur. Nú veit ég ekki hvernig subrogate er notað í gögnunum sem liggja fyrir þinginu og því má þingið gjarna flýta sér hægar í málinu - kannski er þetta notað allt öðruvísu þar. Það er líka háskalegt og alveg rétt hjá Þór og félögum hans í Borgarahreyfingunni að vilja leysa þetta mál án þess að einhver einn fundur í lok júlí hjá Evrópusambandinu ráði nú öllu. Það hlýtur að koma fundur eftir þann fund.

Svo sýnist mér í fyrirsögninni ruglað saman hæfi og vanhæfi og um leið og orðið vanhæfur er notað fer það að bera með sér að einstaklingurinn sé lagalega vanhæfur, sem er þriðja merking af þremur í Íslenskri orðabók. Ég held að Þór hafi ekkert ruglað þessu saman - hann talar um hæfni og vanhæfnni - en það þarf að nota önnur orð til að tala um getuleysi og það að einhver sé vanbúinn til verks vegna skorts á þekkingu eða reynslu eða einhverju öðru.


mbl.is Svavar fullkomlega vanhæfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhagslega bráðnauðsynlegt að bæta almenningssamgöngur

Fátt er brýnna nú í efnahagsþrengingunum en að bæta almenningssamgöngur. Með því móti er ekki einungis hægt að minnka mengun heldur líka spara mikla fjármuni fyrir hið opinbera og almenning. Dragi úr notkun einkabíla verður ekki þörf fyrir mikið af viðbótarumferðarmannvirkjum, kannski bæta vegina á landsbyggðina, laga nokkur göt í malbikið og þess háttar.

Einkum er nauðsynlegt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Eftir nokkur ár verður aukin ferðatíðni strætó og þéttara leiðanet farið að spara peninga. Verður einhvern tíma réttari tími til að hefja uppbyggingu í stað samdráttar á þessu sviði?


mbl.is Skilyrðin of stíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus Árni krafinn um afsökunarbeiðni?

Ég held að Ragnheiður Elín Árnadóttir ætti fremur að biðja samflokksmann sinn úr hennar eigin kjördæmi að biðja einhvern afsökunar - en rétt í þess var ég að hlusta á Árna Johnsen ræða um vinaþjóðir okkar á Norðurlöndunum og hóta slitum samstarfs við þær. Ísland má þakka fyrir að okkar ágætu frændþjóðir að, nú sem fyrr. Við höfum margt af þeim þegið, bæði menntun og margvíslegan stuðning. Ef til vill umfram allt að hafa verið í samstarfi við þær á jafnréttisgrundvelli þrátt fyrir smæð okkar. Ég held að svo verði áfram, a.m.k. svo lengi sem sjónarmið eins og þau sem Árni Johnsen setti fram fá ekki hljómgrunn hér á landi. Fái þau hljómgrunn verðum við fullkomlega einangruð hvarvetna. Það væri ekki gott.


mbl.is Krefst þess að Árni Þór biðjist afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynd = pukur?

Eflaust þurfa þeir sem vinna að flóknum fjármálalegum "gjörningum", svo notað sé orðalag eins af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að hafa vinnufrið. En hvers konar leynd af þeim toga sem hér er lýst veldur tortryggni, það erum við búin að sjá og heyra í vetur. Við viljum geta treyst því að ekki sé verið að pukrast með eitthvað, að ekki sé verið að fara á bak við okkur, plata okkur, eins og banka"ræningjarnir" komust upp með í skjóli Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.


mbl.is Leynd ekki aflétt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurheimt votlendis í Framengjum og Nautey

Fyrirlestur og myndasýning

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, formaður SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, segir frá lokun skurða í Framengjum og Nautey á árunum 2003–2005. Framkvæmt var í því augnamiði að færa vatnabúskap sem næst fyrra horfi og til að stöðva breytingar á votlendisgróðri. Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, og Bergþóra Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, stýra fundi.

Dagsetning: 19. júlí 2009 kl. 20:30. Staðsetning: Sel-Hótel Mývatni, Skútustöðum, 2. hæð.  Kaffiveitingar. - Fyrir fundinum standa: SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi; Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn; Umhverfisstofnun


Gróðursetjum birki og grávíði í stað Valhallar

Bruninn á Þingvöllum kemur minna á óvart þegar maður fréttir af því að brunavarnir voru ekki í lagi - og fyrir nokkrum árum man ég eftir því að frárennslismál voru líka í ólagi. Húsið hefur verið dæmt næstum því ónýtt og ekki metið vera menningarverðmæti sem ætti að varðveita þess vegna. Húsið hefði því vísast átt að vera búið að rífa fyrir alllöngu. Það ber að fagna að ekki varð manntjón við þessar aðstæður, aðstæður sem lá fyrir að væru ekki í lagi, en ég harma tjón persónulegra muna starfsmanna hótelsins.

Ég tek undir með Sigurði Oddssyni um að best væri að tyrfa yfir reitinn - eða gróðursetja eitthvað af birki og grávíði ef það passar við umhverfið þarna á eyrum Öxarár. Ekki kemur til greina að endurbyggja húsið og það þarf að fara að gera gangskör að því að fækka sumarbústöðum broddborgara við vatnið. Það kemur líka fram í ýmsu sem ritað hefur verið í gær og í morgun að framtíðargistisvæði fyrir Þingvelli á að vera við Skógarhóla.


mbl.is Best að tyrfa yfir reitinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandsþráhyggjan - og ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar

Ég hef fylgst með Evrópusambandsþráhyggju Samfylkingarinnar og því hvernig stjórnarandstaðan býr sig undir að greiða atkvæði þannig að stjórnin falli, hvort heldur er út af Icesave-samningunum eða aðildarumsókn. Já, já Framsóknar við Evrópusambandi þegar á að ná í atkvæði og nei, nei ef stjórnin fellur er auðvitað í samræmi við hin gömlu góðu gildi þar á bæ að vera opin í báða enda. Og Sjálfstæðisflokkurinn að greiða atkvæði gegn Icesave-samningi er nú ekki beint sannfærandi. Undanskil Borgarahreyfinguna, veit ekki hvar hún stendur gagnvart ESB.

Vinstri græn standa frammi fyrir því hvort það á að láta endurreisnarstarf í samfélaginu gjalda fyrir Evrópusambandsþráhyggjuna. Vissulega myndi ég vilja að það yrði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla, það er fyrst um það hvort það eigi að sækja um, en ég samþykkti á flokksráðsfundi í vor að það yrði farið í stjórnarsamstarf við Samfylkinguna, vitandi að það yrði ekki tvöföld atkvæðagreiðsla. En það kæmi nú samt óneitanlega úr harðari átt, en flest annað, ef Samfylkingin yrði andvíg því að greiða atkvæði um hvort eigi að sækja um og léti stjórnarsamstarfið stranda á því. Eins og er met ég þó stjórnarsamstarfið meira en hvort það verður þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort eigi að sækja um - ég vona að Samfylkingin geri það líka ef það kæmi til þess að Alþingi samþykkti þess háttar fyrirkomulag.


mbl.is Hefði þýtt stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóknir fjármálalegir gjörningar

Ég átti lengi úrklippu úr einhverju blaði þar sem Tryggvi Þór Herbertsson, bankastjóri Askar Capital, nú alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, í millitíðinni sérlegur ráðgjafi Geirs Haarde í efnahagsmálum, lýsti starfsemi Askar (veit ekki hvort á að beygja þetta "Askar" eða hvort k er kannski c). Úrklippunni hef ég týnt en man þó að hann notaði þar sömu orð og í viðtali við Sjónvarpið á sama tíma, viðtali sem var endursýnt í gærkvöldi. Hann minntist líka á "afleiður" og í blaðaviðtalinu kom eitthvað fram um að það ætti að koma sér fyrir á fjármálasyllum. "Gjörningar": Fyrir hvað stendur það? Flóknir gjörningar? Hvað er það? Núna er verið að rannsaka einhverja slíka gjörninga með grun um að glæpir hafi verið framdir. En a.m.k. gengu gjörningaveður yfir fjármál Íslands.

En talandi um flókna gjörninga, þá virðist einfeldnin vera í fyrirrúmi hjá feðgunum Björgólfi og Björgólfi: Gefa eftir helminginn af sex milljörðum. Bent er á að þarna sé e.t.v. komin uppskriftin af því hvernig skuldir heimila og kannski smáfyrirtækja verði meðhöndlaðar: Gefa eftir helminginn. Eða kannski maður þurfi að skulda sex milljarða til að hægt sé að fara fram á slík kjör.


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsmót UMFÍ - í boði Alcoa! Æi nei

Þegar ég kom til Akureyrar í gærkvöldi úr velheppnaðri hálendisferð upp í Dyngjufjöll blöstu við mér fánar með merkjum Landsmóts Ungmennafélags Íslands og ýmissa fyrirtækja, þar á meðal Alcoa. Og í morgun voru heilsíðuauglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu frá Alcoa um stuðning auðhringsins við Landsmótið.

Mér finnst þetta sorglegt. Landsmót UMFÍ eiga sér langa sögu og þau voru haldin með myndarbrag löngu áður en álauðhringurinn Alcoa teygði anga sína til Íslands.

UMFÍ er ekki eini félagsskapurinn hér á landi sem þiggur styrk frá Alcoa, smámola af gróða þeirra. Fréttir að styrkveitingum Alcoa og það að sjá merki auðhringsins hér og þar verður æ algengara. Hver eru aftur skattfríðindin sem auðhringurinn nýtur? Hvernig væri að fyrirtækið greiddi meiri skatta og að samfélagið ráðstafaði þeim peningum?

Verra er að peningar frá Alcoa eru blóðpeningar eftir þá miklu fórn náttúru Íslands á altari auðhringsins sem virkjunin á hálendi Austurlands er.


mbl.is Innbrotsþjófur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband