Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Orka af landsnetinu?

Saving Iceland er komið af stað í aðgerðum til varnar íslenskri náttúru og gegn umsvifum fjölþjóðlegra fyrirtækja með vafasaman feril. Fréttatilkynningu frá þeim má lesa hér.

Eitt af því sem hefur vakið sérstaka athygli mína undanfarið er að talsmenn sveitarfélaga og álvera tala um að orka komi af landsnetinu. Á þetta minntist Árni Sigfússon bæjarstjóri í vetur í ummælum sem ég hef ekki ekki aðgang í augnablikinu. Og í Morgunblaðinu í dag er haft orðrétt eftir Kristjáni Þ. Halldórssyni, "verkefnisstjóra samfélagsmála hjá Alcoa á Norðurlandi" "að það sé áhugi á því að nýta hugsanlega meiri orku ef háhitasvæðin hér reynast nógu öflug, eða þá orku af landsnetinu" (leturbreyting mín).

Hvaðan á sú orka að koma - kæri Kristján? Verður hún til í rafmagnslínunum? Kemur rafmagnið úr rofunum og vatnið úr krönunum?

Auðvitað er rafmagn sem kemur af landsnetinu er virkjað annars staðar - og í stórum stíl fyrir 346 þúsund tonna álver. Baráttan gegn álverunum er því landsbarátta en ekki landshlutabundin barátta. Nema það takist að fá umhverfisráðherra til að úrskurða að í mati á umhverfisáhrifum álvers þurfi að gera grein fyrir öllum orkukostum og það þurfi mat á umhverfisáhrifum allra virkjana sem eiga að skaffa því tiltekna álveri orku. Það er engan veginn víst að mér líki niðurstaðan og það er heldur ekki víst að mér líki allar niðurstöður úr rammaáætlun og kannski kemur sú áætlun þegar búið verður að virkja flest sem máli skiptir að varðveita.


mbl.is Lögregla ræðir við mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærra álver - fleiri virkjanir

Ég get ekki annað en tekið undir áhyggjur Náttúruverndarsamtaka Íslands. Þau benda á að ef áform Alcoa um álver á Bakka, sem framleiðir 346 þúsund tonn á ári, verða að veruleika þurfi að virkja Skjálfandafljót og hugsanlega einnig Jökulsár austari- og vestari í Skagafirði.


Fimmtíuþúsundasta flettingin

Fimmtíuþúsundasta fletting bloggsíðunnar nálgast bráðlega og ég hef ákveðið að senda einum bloggsíðugesti gjöf af því tilefni, eins og þegar síðunni var flett í tíuþúsundasta skiptið í júlí og desember á síðasta ári. Reglurnar eru að sá eða sú sem vil taka þátt í því að verða númer fimmtíuþúsund sendir "kvitt" við þessari bloggfærslu og fljótlega eftir að fimmtíuþúsundustu flettingunni er lokið mun ég draga eitt nafn af þeim sem hafa kvittað við færsluna og líta þannig á að það hafi verið fimmtíuþúsundasti gesturinn. Aðeins eitt kvitt frá hverjum þátttakanda gildir.


Verktakalýðræðið í framkvæmd

Það eru margar byggingar hér á Akureyri sem hafa verið reistar eftir að verktaki sá auða lóð sem hann taldi sig geta grætt á að byggja á. Í nágrenni mínu eru fjögur lítil fjögurra íbúða hús sem voru sett á einu skipulögðu verslunarlóð hverfisins. Vitaskuld fór þetta í gegnum skipulagsferli og ég minnist ekki mótmæla okkar nágrannanna við þessu. Við Mýrarveg eru fjórar blokkir sem fyrst áttu bara að vera tvær en upphaflega alls engin. Við Brekkugötu, og skyggja á útsýnið frá útsýnisskífunni á klöppunum hjá þeim Helga magra og Þórunni hyrnu, eru tvær stórar blokkir sem verktakinn ætlaði fyrst að hafa eina enn þá stærri blokk. Það væri fróðlegt rannsóknarverkefni að fara yfir breytingar á skipulagi sem gerðar hafa verið eftir að verktaki eða verslunareigandi sá slíkt autt svæði. Í mörgum tilvikum hefur þetta verið framkvæmt í andstöðu við íbúa, eins og í þessu.

Augljóst er að ekki er allt sem er gert í andstöðu við íbúa ólöglegt, örugglega oftast löglegt - en lýðræði snýst um sátt engu síður en lögformlegheit. - ég á við lýðræði almennra borgara en ekki lýðræði verktaka. Ég fæ ekki betur séð en hér hafi til dæmis verið gengið alltof langt þótt auðvitað voni ég að það takist að byggja í mógröfunum klakklaust og án skemmda á öðru en útsýninu hennar Önnu Ólafsdóttur, anno.blog.is - sem ég met þó met mikils að hún og nágrannar hennar fái að halda.


mbl.is Verktakalýðræði á Akureyri?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, var það ekki stærra álver, heillin

Ekki get ég sagt að þetta komi mjög á óvart - en nú sem aldrei fyrr er gersamlega bráðnauðsynlegt að umhverfisáhrif álvers og virkjana verði metin saman þannig að Skjálfandafljóti og síðar ófriðlýstum köflum Jökulsár á Fjöllum, sem enn eru margir, verði ekki bætt við síðar í litlum áföngum.

Eða Gjástykki sem Landsvirkjun kveinkar sér yfir að hafa þurft að bíða eftir úrskurði um að rannsóknarboranir þyrftu í mat á umhverfisáhrifum í stað þess að undirbúa sjálf það ferli. Mér skilst Landsvirkjun hafi beðið í þrjá mánuði; SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, þurftu að bíða í átta mánuði eftir því að fá úrskurð um hvort rannsóknarboranir við Þeistareyki þyrftu í mat á umhverfisáhrifum, en SUNN kærðu úrskurð um þess þyrftu þær ekki.


mbl.is Skoða stærra álver á Bakka en áður var áformað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing löggæslu gegnum fjársvelti lögreglu?

Fréttir berast nú af því að sveitarfélög ætli sér að semja við einkafyrirtæki um öryggisgæslu í hverfum og nýlega voru ráðnir "miðborgarþjónar" í Reykjavík. Og í gær var á forsíðu Mogga að aðeins 14 lögreglumenn hefðu verið á vakt á höfuðborgarsvæðinu um helgina - vegna fjárskorts.

Hér er að mörgu að hyggja: Dagur B. Eggertsson fv. borgarstjóri sagði í RÚV í morgun að hér gæti orðið um falskt öryggi að ræða, hverfagæslan verði ekkert það góð. Um það má eflaust deila en samt er þetta augljós fyrirvari sem verður að setja. Og hverfagæslan kostar peninga úr sveitarsjóðum sem ætti að kosta úr ríkissjóði. Eitthvað annað mun víkja úr þjónustu sveitarfélaganna, hvort það verða skólamál eða menningarmál eða aðhlynning aldraðra sem þurfa aðstoð til að geta búið sem lengst heima hjá sér. Sveitarsjóðir standa margir hverjir mishöllum fæti - og verður þá minni löggæsla og hverfagæsla í þeim verr stæðu? Einkaöryggisgæslan er ekki æskileg þróun í ljósi fjársveltis til lögreglunnar.


mbl.is Hverfagæsla boðin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur því miður ekki á óvart

Enda þótt margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi á síðustu áratugum kemur því miður ekki á óvart þótt stjórnvöld fái ákúrur um frammistöðu gagnvart þessum samningi. Jafnframt er gleðilegt að stjórnvöld fái skýra leiðbeiningu um hvernig bregðast skal við og með aukinni áherslu á nám í kynjafræðum og útgáfu rannsókna á því sviði er til þekking í landinu til að bregðast við ábendingunum. Jafnréttislöggjöfin var endurskoðuð sl. vetur og er nú hafin vinna til að fylgja henni eftir sem vonandi skilar árangri. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, sem jafnframt er jafnréttisráðherra, fagnar örugglega ábendingum Sþ.
mbl.is Nefnd SÞ lýsir vonbrigðum með Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teljast þá Þeistareykir raskað svæði?

Þar með hlýtur Gjástykki að vera öruggt nema vegarslóð teljist röskun, en Þjórsárver ekki þar sem þau eru raskað svæði. En hvað með Þeistareyki? Engin virkjun hefur verið gerð þar enn þá - en rannsóknarboranir fengu brautargengi í úrskurði umhverfisráðherra í vor. Og hvað með Leirhnjúk? Og gott væri að læra af reynslunni með ruðningsáhrif stóriðjuframkvæma áður en byrjað er á nýjum.


mbl.is Sömdu um málamiðlun í stóriðjumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir slær á fingur Össurar, heyrist mér

Meðan Björgvin G. Sigurðsson tekur skóflustungu að álveri á Suðurlandi og Össur Skarphéðinsson skrifar undir viljayfirlýsingu um álver við Húsavík, er þá ástæða til að taka eitthvert sérstakt mark á yfirlýsingum þeirra um náttúruvernd annars staðar? T.d. um verndun Þjórsár?

Nei, varla. Enda hefur forsætisráðherra nú leiðrétt Össur, stefna ríkisstjórnarinnar er skýr, friða skal sem hóflegast. Össur er vissulega ekki umhverfisráðherra, heldur fyrrverandi sem slíkur - en ég vona að flokkssystir hans Þórunn Sveinbjarnardóttir, núverandi umhverfisráðherra, taki hann á orðinu og friðlýsi meira en ríkisstjórnin ætlaði sér. Enda má vísa í að þegar sjávarútvegsráðherra heimilaði hvalveiðar, sór þá ekki Samfylkingin það af sér, a.m.k. heima fyrir, þótt hún muni verja þær erlendis?


mbl.is Mun ekki friða meira af Þjórsárverum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðlýstur helgistaður allra Íslendinga

 ... eða einkaeignarblettir þeirra betur stæðu? Um þetta mál ritar meðal annars Hjörleifur Guttormsson: "Eðlilegt er að krefjast þess að Þingvallanefnd geri nú hreint fyrir sínum dyrum og marki stefnu sem samræmist lögum um þjóðgarðinn en samkvæmt þeim 'skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.' (Lög nr. 59/1928)."

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband