Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Óumbeðinn auglýsingapóstur

Var að hlusta á frétt þess efnis að póstútburðarfólki beri að hunsa gömlu gulu límmiðana frá Póstinum og heimagerða miða þar sem fjölpósti mismerkilegum er hafnað. Það mun skipta tugum kílóa á ári, fyrir utan Fréttablaðið, sem berst óumbeðið á heimilin, sem íbúar þurfa á eigin kostnað að koma í endurvinnslu. Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, er reyndar búin að setja nefnd í málið.

Í raun og veru ætti að vera óheimilt að setja auglýsingar inn á heimili án leyfis, og a.m.k. óheimilt að hunsa óskir um annað. Reyndar veit ég ekki hvort póstútburðarfólkið mitt er farið að hunsa upplitaða gula miðann sem ég ætlaði að fara endurnýja rétt áður en ég frétti að þeir stæðu ekki lengur til boða - en nóg er samt af drasli sem kemur með Fréttablaðinu.


Fallegt hús til sölu

Undanfarna daga er ég búinn að sjá margar myndir af Höepfnershúsinu á Akureyri sem er til sölu og því velt upp hvort þetta sé eitt af fallegustu húsum Akureyrar. Í auglýsingu fasteignasölunnar þar sem er mynd af húsinu segir: "Eitt af fallegri húsum Akureyrar ... Húsið er 549,8m2 á þremur hæðum auk kjallara ... Húsið stendur við Hafnarstræti 20. Húsið býður upp á margs konar möguleika hvort heldur er fyrir verslun, skrifstofur, vinnustofur eða til íbúðar. Fjórir inngangar eru í húsið. Lofthæð er mikil á öllum hæðum. Gistiheimili er nú rekið í húsinu og hefur verið rekið þar síðustu fjögur ár ... Húsið er ný málað að utan, járn á þaki endurnýjað, allir gluggar með tvöföldu gleri. Allar lagnir í vatni og rafmagni endurnýjaðar ... Byggingarár 1911. Byggingarefni timbur." Einnig var löng frásögn um húsið í fasteignablaði Moggans sl. mánudag.

Mér er annt um þetta fallega hús því að þetta var mitt fyrsta heimili. Ég fluttist þaðan þegar ég var þriggja ára þannig ég man nú ekki eftir því en man eftir sögum sem mér hafa verið sagðar. Við bjuggum á loftinu en á hæðinni fyrir neðan bjó frú Ragnheiður O. Björnsson kaupkona sem ég man vel eftir. Á menntaskólaárunum var kjörbúð á jarðhæðinni og fyrir fáeinum árum var þar gæludýrabúð. Ég bankaði upp á og fékk að sjá íbúðina á efstu hæðinni og þótti vænt um það. Ég vona að húsinu farnist vel og kaupendurnir verði ánægðir með húsið.


Breytt viðhorf til friðunar húsa

Ég held að viðhorf til húsafriðunar séu að gerbreytast - og mikil umræða er nú í samfélaginu um friðun götumynda, menningarlandslag o.s.frv. ... og af hverju haldið þið að Newsweek hafi gert Laugavegi sérstök skil sem chic hér í haust? Ekki vegna nýbygginga ... Sigur Frjálslynda flokksins í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum var áreiðanlega til kominn vegna þess að flokkurinn var gegn því að samþykkja stórfellt niðurrif húsa við Laugaveg. Sem betur fer taka fulltrúar annarra stjórnmálaflokka nú í vaxandi mæli undir þetta og vilja endurskoða fyrri ákvarðanir. Þá hefur þingmaður VG, Árni Þór Sigurðsson, fv. borgarfulltrúi lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um húsafriðun í því skyni að styrkja húsafriðun.

Eitt af því sem ég hef séð undanfarna daga er að lyfta núverandi húsum við Laugaveg 4-6. Þetta var gert við húsið á suðvesturhorni Glerárgötu og Strandgötu hér á Akureyri fyrir nokkrum árum og tókst vel. Og auðvitað við fjölda annarra húsa.


mbl.is Ráðherra friði Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Safnasafnið á Svalbarðsströnd

Allir þessir aðilar eiga Eyrarrósina skilið en ég hef á tilfinningunni að færri þekki Safnasafnið á Svalbarðsströnd en hina sem tilnefndir eru. Alveg sérstök tilfinning fyrir mig er sú að Safnasafnið var stofnað sama ár og ég flutti til Akureyrar til að fara að vinna við Háskólann. Því má eiginlega hálfpartinn segja að við séum jafngömul, ég og Safnasafnið, og það er meðal annars þess vegna sem ég "held með" Safnasafninu. Tilnefning þess er þó viðurkenning sem ég kann að meta jafnvel þótt Eyrarrósin fari í Skagafjörðinn eða vestur á firði í þetta skipti.

Safnasafnið fékk nýtt húsnæði í sumar og þarf ekki lengur að nota íbúð eigendanna sem hafði verið í gert frá stofnun. Nýja húsnæðið er gamalt hús sem með nýbyggingu hefur það verið tengt við upphaflegt hús. Upphaflega húsið er gamalt samkomuhús sem hafði verið breytt í íbúðarhús af miklum myndarskap. Þessi aðstaða er orðin afar skemmtileg. Hvet þá sem koma hér norður á sumrin til að leggja leið sína þessa rúmu 10 km austur (og norður) fyrir Akureyri og skoða Safnasafnið; þetta er á leiðinni austur í Mývatnssveit og til Húsavíkur, fast við þjóðveginn, rétt hjá Svalbarðseyri. PS. Var að fá orð í tölvupósti frá konu sem var öll sín barnaskólaár í þessu húsi og tók þar fullnaðarpróf, enda þjónaði húsið líka hlutverki skóla. Þetta er sem sé mikið menningarhús.


mbl.is Tilnefnd til Eyrarrósarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er menntaskóli? Spyr Vegagerðin

Að gefnu tilefni er áréttað að túlkun Vegagerðarinnar er sú að menntaskóli sé orð yfir framhaldsskóla, þ.e. næsta stig menntakerfis á eftir grunnskóla og eru þá meðtaldir fjölbrautaskólar, Verslunarskólinn, Kvennaskólinn, verkmenntaskólar og iðnskólar. Þetta kemur fram á síðu Vegagerðarinnar, þar sem fréttin er í heilu lagi. En af hverju notar Vegagerðin ekki orðið framhaldsskóli sem sameiginlegt heiti eins og skilgreint er í lögum um framhaldsskóla?

Gleðilegt nýtt ár


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband