Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Friðlýsum Héðinsfjörð um leið og göngin opnast

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi hafa sent umhverfisráðherra annars vegar og bæjarstjórn Fjallabyggðar hins vegar eftirfarandi áskorun:

 

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, skora hér með á umhverfisráðherra og bæjarstjórn Fjallabyggðar að beita sér fyrir friðlýsingu Héðinsfjarðar sem friðlands eða fólkvangs. Friðlandið yrði stofnað eigi síðar en jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða opnuð, en undirbúning friðlýsingar, merkingar gönguleiða og brúun lækja og mýrlendis þarf að hefja sem allra fyrst.

     Fjallabyggð og byggðarlög í nágrenninu hafa mikla hagsmuni af því að friðland verði stofnað á norðanverðum Tröllaskaga, með eins konar hjarta í Héðinsfirði. SUNN telja því sé eðlilegt að sveitarfélagið beiti sér í málinu með umhverfisráðherra. Þá er ekki ólíklegt að hinn siglfirski samgönguráðherra hafi áhuga á málinu. Friðlýsing myndi hafa afar góð áhrif á ímynd svæðisins alls og vafalítið stuðla að auknum ferðamannastraumi um norðanverðan Tröllaskaga og auka þannig þau jákvæðu áhrif sem fólk á svæðinu vonast til að skapist vegna jarðganga og vegar sem liggur þvert yfir Héðinsfjörð. 

     Þótt Héðinsfjörður verði ekki friðland eða fólkvangur við opnun jarðganganna þarf að gera friðunarráðstafanir þegar vegur verður kominn. Um þetta hafa landeigendur, náttúruverndaryfirvöld, SUNN og fjölmargir aðrir sem hafa tjáð sig verið sammála, t.d. þarf að hindra bílaumferð utan þjóðvegar og það þarf að gera þar gott göngustíga- og gönguleiðakerfi sem í senn verndar gróður og landslag og tryggir almenningi aðgang. Koma þarf á fót móttöku fyrir gesti, bílastæðum, göngustígum og brúm yfir læki og um mýrlendi. Allar slíkar aðgerðir munu gagnast betur ef landið verður formlega friðlýst og komið á landvörslu og upplýsingagjöf fyrir ferðafólk.  

Sjá um fyrri tilraun til friðlýsingar.


Hvenær vissirðu að þú værir gagnkynhneigð/ur?

Undanfarna daga hef ég oft heyrt og séð homma og lesbíur spurð að því í fjölmiðlum hvenær hann eða hún vissi um samkynhneigð sína, en ég hef blátt áfram aldrei nokkru sinni séð eða heyrt gagnkynhneigðan einstakling spurðan að því hvenær hann eða hún vissi um sína kynhneigð. Ef spurt væri í eðlilegum hlutföllum ætti maður sennilega að sjá þá spurningu tíu sinnum oftar. Ég hef heldur aldrei heyrt gagnkynhneigt fólk spurt að því hvenær það „hafi komið út úr skápnum" um kynhneigð sína.

Mótun kynhneigðar og merking hennar er flókið fyrirbæri, líffræðilegt sem sálfræðilegt sem félagslegt. Þetta er eitt af þeim málefnum sem skólakerfið hefur ekki sinnt sem skyldi og ekki er minnst á í aðalnámskrám. Þessu þarf að breyta og á því er áhugi, t.d. á Akureyri þar sem haldið var námskeið fyrir kennara á sl. ári. Skólar geta kannski aldrei gert mikið meira heldur en að opna þessa umræðu en þeim er samt ætlað með námsgreininni lífsleikni að kenna unglingum aðferðir til sjálfskoðunar - og kynhneigðin, hver sem hún er, er þýðingarmikill þáttur í mótun sjálfsvitundar. Sennilega hefur kynhneigðin og mótun hennar aldrei verið þýðingarmeiri vegna mikillar umfjöllunar um sambönd um fólks og kynlíf, bæði jákvæð og neikvæð umfjöllun. Mjög margt gagnkynhneigt fólk hefur aldrei farið í gegnum sams konar sjálfskoðun um kynhneigð sína og langanir og margt sam- og tvíkynhneigt fólk hefur þurft að gera. Aukin umfjöllun skólakerfisins um kynhneigð kemur þó öllum góða.

Ég óska öllum til hamingju með gleðigönguna í gær.


mbl.is Mikil þátttaka í Hinsegin dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsminjar og alheimsvitund

Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna er enn eitt dæmið um hvernig veröldin smækkar og stækkar í senn: Leitað er eftir samvinnu landa um verndun hliðstæðra minja í ýmsum löndum, að lönd taki sameiginlega ábyrgð á menningar- og náttúruverðmætum, eins og kemur fram í þessari frétt. Í þessum efnum smækkar heimurinn en með aukinni þekkingu okkar á fjarlægum svæðum stækkar það svæði sem verður heimur hvers einstaklings. Þetta ætti að auka alheimsvitund okkar og hæfileika til að laga sig að breytingum.
mbl.is Ný yfirlitsskrá um fyrirhugaðar tilnefningar á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannið eða veðrið?

Hefði kannski ekki verið nauðsynlegt að banna 18-23 ára að tjalda á Akureyri í ljósi veðurspárinnar? Einhvern veginn finnst mér vera mótsögn í því að þakka sér góðan bæjarbrag vegna bannsins en kenna svo veðri um fámenni í bænum. En meðal annarra orða, Gísli Ásgeirsson hefur nú tilkynnt að tjaldstæðamálið fái Lúkasinn 2007.

Ekki mikil sjálfsgagnrýni eða greining á ferðinni

Ég hefði viljað sjá í þessari yfirlýsingu meiri sjálfsgagnrýni bæjarstýrunnar okkar og greiningu á þeirri harkalegu gagnrýni sem ákvörðun bæjaryfirvalda á Akureyri hefur sætt. Aukinheldur hef ég engan sérstakan áhuga á að fella bæjarstjórann eða meirihlutann á einmitt þessu máli sem ég held að sé geti varla verið flokkspólitískt mál heldur einkar klaufalegt, og tek því ekki undir með herferð kaupmanna og öldurhúsaeigenda gegn bæjarstjórnarmeirihlutanum og bæjarstýrunni. Eins og ég benti á í fyrri færslu hefur ákvörðunin valdið bænum álitshnekki, ekki bara bannið sem slíkt, heldur hvernig að kynningu þess var staðið. Það er einmitt sú greining sem bæjaryfirvöld þurfa að framkvæma.
mbl.is Ákvörðun um að banna ungmennum að tjalda tekin af illri nausyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing skólakerfisins á blússandi ferð

Fréttir hafa borist af því að Hjallastefnan muni nú reka leik- og grunnskóla á Miðnesheiði. Hún er einkafyrirtæki sem rekur skóla á leik- og grunnskólastigi og eru þeir einkum þekktir fyrir hópaskiptingu eftir kyni, en leggja reyndar áherslu á margt fleira í sinni uppeldisfræði sem er að nokkru byggð á femínískum grunni. Þetta er af yfirvöldum þar syðra talið mikið framfaraspor í menntun en svo varð hann svolítið vandræðalegur í útvarpsfréttunum áðan, sjálfstæðisbæjarstjórinn Árni Sigfússon í Reykjanesbæ og mundi eftir að segja "að það væru reyndar mjög góðir leik- og grunnskólar alstaðar í Reykjanesbæ". Nú er spurning hvort útbreiðsla Hjallastefnunnar er út af uppeldismarkmiðum hennar eða hvort hún er notuð sem það einkafyrirtæki sem ræður við að reka skóla? Það hafa nefnilega fleiri reynt og ekki alltaf tekist, sbr. Íslensku menntasamtökin og skólana í Áslandshverfinu í Hafnarfirði. Af hverju þarf að kalla Hjallastefnuna til ef skólarnir sem reknir eru af sveitarfélaginu eru góðir? Er það til að einkavæða - til að einkavæða?
mbl.is Samið um uppbyggingu leik- og grunnskóla á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halló Akureyri! Halló Akureyri?

Nýjasta nýtt í verslunarmannahelgarskemmtunum á Akureyri er að meina fólki á aldrinum 18-23 ára aðgang að tjaldsvæðum bæjarins, og hafa fáir komið til varnar þeirri ákvörðun. Ég á bágt með að skilja þessa ákvörðun og þar með á ég erfitt með að vera með henni eða á móti af efnislegum ástæðum. Hins vegar heyrist mér og sýnist á öllu að þetta bann verði sveitarfélaginu til verulegs álitshnekkis og verði þannig hluti af röð hneyksla í kringum verslunarmannahelgarskemmtanir í bænum. Þannig var að fyrstu árin eftir að ég flutti til Akureyrar fyrir 12 árum var haldin hátíð sem nefndist Halló Akureyri sem mér fannst alltaf vera stytting á "hallærislega Akureyri" og ég bar fram með "dl" í halló til að tákna það. Sú hátíð varð alræmd vegna fyllirís og slæmrar umgengni og í kjölfarið var sett gríðarlega mikil girðing utan um tjaldsvæðið rétt við hús Háskólans við Þingvallastræti þar sem ég vinn; Háskólinn og tjaldsvæðið deilar raunar bílastæði. Ég kom þar inn á bílastæðið á frídegi verslunarmanna 2004 og þvílík umgengni - og þá var samt búið að skipta um heiti á Halló Akureyri.

Ég óttast að ákvörðunin um aðgangsbann 18-23 ára, hversu vel meint sem hún kann að hafa verið, sé fáránleg almannatengslamistök og til þess fallin að láta Akureyri líta hallærislega út. Kjörorð bæjarins er:  Akureyri - öll lífsins gæði. Nema fyrir 18-23? Við í Háskólanum viljum t.d. fá fleiri nemendur, m.a. fólk á aldrinum 20-23 ára, og bjóðum margvíslegt spennandi nám fyrir fólk á þeim aldri, en það er líka mikilvægt að nemendunum líði vel í bænum, og reyndar hafa bærinn og Háskólinn unnið saman að því. En bæjarfélagið þarf að fara yfir það að lokinni helginni hvort aðgangsbannið að tjaldsvæðunum hafi verið skynsamlegt og skoða þá vel umræðuna sem hefur farið fram og þær ábendingar sem hafa komið fram frá ungu fólki á öllum aldri á síðustu dögum.


mbl.is Aldurshópurinn 18-23 ára fær ekki aðgang á tjaldstæðum á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Kristín - velkomin norður

Ég fagna skipun Kristínar Ástgeirsdóttur, skólasystur minnar úr sagnfræðinni, í starf framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, og býð hana hjartanlega velkomna til Akureyrar. Kristín hefur mikla og góða reynslu af fræðistörfum, stjórnunarstörfum og síðast en ekki síst úr pólitíkinni.
mbl.is Kristín Ástgeirsdóttir skipuð framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál: gjaldtaka af miðbæjarbílaumferð

Styð notendagjöld af þessu tæi þar sem maður á val og getur notað almenningssamgöngur. Styð ekki notendagjöld af heilbrigðisþjónustu þar sem maður á ósköp lítið val verði maður veikur. Mér skilst að bílaumferð í London hafi minnkað nægilega til að þeir sem borga gjaldið hafi greiðari leið og leikurinn er til þess gerður. Ég vil að skattarnir mínir fari í heilbrigðisþjónustu og menntamál en ekki í hernaðarbrölt eða mislögð gatnamót.

Umferðaröngþveiti eru afar sjaldgæf hér á Akureyri; í mesta lagi þarf maður að bíða eftir ljósum í tvær lotur í beygjuljósum og mikilli umferð (á akureyrskan mælikvarða). Yfirvöld bæjarins ákváðu að ekki yrðu greidd gjöld fyrir að ferðast í strætó - mér skilst það hafi verið svo í Reykjanesbæ í nokkur ár - og nú hyggjast yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu feta sama veg að einhverju leyti. Gott mál.


mbl.is Vegtollur tekinn upp í Stokkhólmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanir án mats á umhverfisáhrifum

Múlavirkjun á Snæfellsnesi er nú til umræðu eftir að í ljós kom að hún var byggð öðruvísi en til stóð. Stöðuvatn, sem átti að haldast óskert, var gert að uppistöðulóni og nú er komið í ljós að ekki voru rannsakaðar fornminjar sem fóru undir vatn. Virkjunin slapp við mat á umhverfisáhrifum sem er helsta aðferðin til að almenningur geti látið í ljós álit sitt á framkvæmdum. Stífla við nýlega virkjun í Eyjafirði brast í flóðum í vetur; sú virkjun fór ekki í mat á umhverfisáhrifum. Og nú hefur verið sóst eftir því að virkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi fái undanþágu frá mati en henni fylgir líka vegur um ósnortið land; vonandi sér umhverfisráðherra ástæðu í ljósi reynslunnar að krefjast mats, ekki bara af umhverfis- og náttúruverndarástæðum, heldur líka þeim að undirbúningur gæti orðið vandaðri við slíkar framkvæmdir ef þær eru betur undir búnar. Nægar náttúruverndarástæður eru þó gegn virkjuninni í Skaftafellssýslu og það er ljóst að Múlavirkjun er hæpin af slíkum ástæðum, a.m.k. eins og hún var byggð í trássi við kynnt áform.


mbl.is Óskráðar fornminjar fóru undir vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband