En tjón af því að aka alls konar slóðir merktar á ýmis kort?

Jeppamenn og kortagerðarmenn keppast nú við að bera hönd fyrir höfuð sér vegna skarprar gagnrýni Kolbrúnar Halldórsdóttur fv. alþingismanns og umhverfisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag. Í dag ritar Kristinn Guðmundsson kortaútgefandi grein á bls. 24 þar sem ver rétt til að búa til "rétt kort" af slóðum sem hafi verið einhvers staðar í áratugi. En Kolbrún hafði gagnrýnt að í tölvuvædda kortagrunna væru settar GPS-mælingar af alls konar slóðum sem lægju um friðlönd. Kristinn telur það að birta ekki upplýsingar um slóð í Þjórsárverum væri "fölsun á staðreyndum".

Kristinn tekur fram að hlutverk fyrirtækis hans sé ekki að "ákveða hvar má aka og hvar ekki". Við erum sammála um það. En hann ætti kannski að hugsa sig tvívegis um hvort það sé hugsanlegt að "rétt kort" leiði til þess að einhverjir haldi í góðri trú að þau merki "hvar má aka". Ég gæti auðveldlega dottið í þá gryfju ef ég vissi ekki betur, meðal annars vegna þátttöku minnar í uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem við höfm áhyggjur af því að merkingar á kort hafi í raun leitt til óafturkræfra ákvarðana um "hvar má aka". Og fyrir utan náttúruspjöll sem geta stafað af akstri slóða sem rata á kort hjá kortagerðarmönnum sem búa til "rétt kort", þarf líka að huga að því hvort slóðin er þá merkt eðlilegum öryggismerkingum á kortinu - það er ekki á öllum kortum sem ég hef séð (en tek fram að ég hef ekki skoðað kort Kristins). Þannig getur "rétt kort" orðið býsna hættulegt nema fyrir þá sem eru á best útbúnu bifreiðunum.

Skoðum svo blogg Páls Ásgeirs: http://blog.eyjan.is/pallasgeir/2009/08/25/jeppalaus-thjorsarver. Hann bendir á að það skiptir voðalegu litlu máli þótt einhver hafi einhvern tíma brotist eitthvert á jeppa; það þýði ekki að aðrir megi gerast sekir um þess háttar villimennsku. Og við þetta má enn bæta að þótt einhver hafi rænt verslun eigum við hin að halda áfram að stunda heiðarleg viðskipti.


mbl.is Tjón vegna málningarsletta á bifreiðar fæst bætt
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Þessi umræða hefur á sér margar hliðar.
Sjónarhorn Kolbrúnar er að margra viti sjónarhorn öfgamanneskjunnar sem telur að friðlönd séu eingöngu fyrir fullfríska göngugarpa að njóta.
Það hefur verið markmið öfgasinna, hvaða öfgar sem í hlut eiga, að neyða aðra til að fara að þeirra kröfum.
Í þessu tilfelli er litið á bíla sem böl, einnig þá sem stjórnað er af fólki sem fer í einu og öllu eftir landslögum.
Það hefur verið barátta þeirra sem hafa gaman af að ferðast um landið á gömlum vegslóðum að viðhalda skráningu þeirra á kortum. Alltof oft hefur brugðið við að slóðar hafa horfið af kortum þegar þau hafa verið uppfærð. Gríðarlegt átak hefur átt sér stað til að safna saman gögnum um slóða á hálendinu og koma þeim á GPS kortagrunna. Með þessu er viðhaldið upplýsingum um þessar gömlu leiðir, auk þessa hefur Ferðaklúbburinn 4X4 tekið að sér að stika hálendisleiðir. Allt minnkar þetta utanvegaakstur.
Ég hvet eindregið til að fólk lesi eftirfarandi pistil á vef 4X4 vegna þessarar umræðu:
Jeppaslóði í friðlandi Þjórsárvera

Sigurður Ingi Jónsson, 26.8.2009 kl. 12:17

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér innlitið, Sigurður Ingi. Þú fellur í þá leiðu gryfju að kalla fólk sem er þér ósammála öfgafólk, en að öðru leyti fagna ég þeim upplýsingum þú berð fram. Talsvert af umræðunni á 4X4-vefnum er þó rætnara, t.d. í garð Kolbrúnar, ekki til sóma þeim er það rita (né þeim sem það birta).

Ég fagna líka framtaki 4X4 að stika slóðir því að það er auðvelt að villast, jafnvel þegar leiðir Vegagerðarinnar er um að ræða, en í síðustu viku var ég á ferðinni upp úr Bárðardal að austan inn á F910 og þar skortir merkingar. En ég stend við þá gagnrýni mína að ekki eigi að gefa út upplýsingar um slóðir sem valda óafturkræfum og óásættanlegum náttúruspjöllum. Ég er sannfærður um að 4X4 taki þátt í því að meta slóðirnar frá slíku sjónarmiði með okkur sem berum ábyrgð á náttúruverndinni - og 4X4 er væntanlega betur í stakk búið en ég að meta áhættuna.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 26.8.2009 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband