Menntamálaráðherra úthlutar séníverum

Ein af hljóðu fréttunum en þeim góðu á undanförnum dögum er úthlutun styrkja úr markáætlun Vísinda- og tækniráðs. Hugmyndin er sú að úthluta veglegri styrk en áður hefur tíðkast til nokkurra rannsóknarsetra til að efla þau bæði á innlenda og alþjóðlega vísu, gera þeim kleift að ráða fleiri fræðimenn og nema í framhaldsnámi. Hugmyndin er sú að með þessum fjármunum sé hægt að mynda öndvegissetur eða það sem á ensku hefur verið kallað centre of excellence. Mér sýnist fyrirmyndin vera erlend - en það er íslenskur brandari að kalla öndvegissetrin "séní-ver", ver eða stað þar sem er fullt af séníum/snillingum að störfum - eða er ekki snillingur besta íslensa orðið yfir slettuna séní?. Reyndar er um að ræða rannsóknarklasa eða rannsóknarnet fræðafólks sem hefur margvísleg alþjóðleg tengsl, eins og t.d. í því tilviki af þessum þremur sem ég þekki best, það er jafnréttis- og margbreytileikarannsóknunum. Það er líka þakkarvert, og að mér skilst bæði til gömlu og nýju ríkisstjórnarinnar, að hafa ekki hætt við séníverin í efnahagsástandinu, bæði þakkarvert og til marks um skilning á mikilvægi þess að efla rannsóknir.

Auglýst var eftir umsóknum sl. vor um þátttöku í þessari samkeppni og í sumar fengu tíu hugmyndir einnar milljónar króna styrk til að þróa betur hugmyndina. Umsóknirnar voru metnar af erlendum sérfræðingum og sérskipuðu fagráði innlendra sérfræðinga áður en stjórn sjóðsins fékk þær til meðhöndlunar. Niðurstaðan er síðan sú að þrjú verkefni fengu styrk. Sagt er frá úthlutuninni sem á heimasíðu Rannís.

Alþjóðlegur rannsóknarklasi í jarðhita Verkefnisstjóri: Sigurður M. Garðarsson. Styrkur 2009 nemur allt að 70 millj. kr.

Vitvélasetur Íslands Verkefnisstjóri: Kristinn R. Þórisson. Styrkur 2009 nemur allt að 55 millj. kr.  

Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum Verkefnastjóri: Irma Erlingsdóttir. Styrkur 2009 allt að 35 millj. kr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Góður!

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 21.2.2009 kl. 14:54

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hrökk í rogastans enda var sénivér einn af vinsælustu brennivínsdrykkjum á Íslandi. Meira að segja menn voru svo hugfangnir af þessum hollenska mjög að eitt sinn var gerður út fiskibátur sem sigldi til Hollands og kom til baka troðfullur af smygluðum sénivér. Eigandi bátsins vissi ekki betur en að báturinn væri gerður út á snurvoð frá höfn á Suðurnesjum og kom af fjöllum þegar lögreglan innti hann um ferðir bátsins.

Eftir þágildandi lögum missti eigandinn bátinn og var það harður dómur gagnvart honum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 22.2.2009 kl. 13:56

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlit, Elinóra og Mosi - takk líka fyrir fróðleiksmolann, Mosi góður

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.2.2009 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband