Hverjir eru trúverðugir til að stjórna háskólum?

Á sl. ári var lögum um opinbera háskóla breytt þannig að dregið var úr þeirri aldagömlu hefð að háskólum sé fyrst og fremst stjórnað af þeim vísindamönnum sem þar starfa - hefð sem hefur verið reynt að viðhalda í því augnamiði að tryggja sjálfstæði og rannsóknarfrelsi vísindamannanna. Sjö manna háskólaráð Háskólans á Akureyri (HA) er nú aðeins skipað einum fulltrúa vísindamanna og einum fulltrúa nemenda, auk rektors og fjögurra annarra. Tveir þessara fjögurra voru valdir af fyrrverandi menntamálaráðherra og tvo valdi háskólaráðið samkvæmt nýju ákvæði í lögunum. Áður var aðeins einn fulltrúi pólitískt valinn á þennan hátt. Þetta er afturför því að það eru tuttugu ár síðan menntamálaráðherra ákvað hverjir yrðu lektorar, dósentar og prófessorar, að fengnu hæfismati og atkvæðagreiðslu í háskóladeild, en eftir henni þurfti hann ekki endilega að fara. Í tilviki HA verður valinn nýr rektor í vor en hann verður vísast ekki valinn af háskólasamfélaginu í heild heldur af háskólaráðinu.

Skyldu vera einhver rök fyrir þessari áherslubreytingu? Hluti rakanna er sá að hér sé fylgt evrópskri leið til breytingar sem Ríkisendurskoðun og úttektaraðilar leggi á beinan og óbeinan til að hér sé fylgt. Nefnd eru ýmis ytri og innri rök, meðal annars að kjörnir fulltrúar vísindamanna muni kannski lenda í hagsmunaárekstrum þegar kemur að afgreiðslu mála. Mikilvægustu rökin, sem tínd eru til í greinargerð með frumvarpi til laga um opinbera háskóla, eru þó þessi: Öll framvinda í umhverfi íslenskra háskóla á síðustu tíu árum gerir afar brýnt að forusta þeirra verði efld út á við. Þróun þekkingarsamfélagsins verður sífellt örari og jafnast hraðinn tíðum á við stökkbreytingar. Til þess að tryggja hagsmuni sína í þessari stöðugu ummyndun verður hver háskóli að leggja höfuðáherslu á markmiðsbundna stjórnun og víðtæka hagsmunagæslu með samningum og samstarfi. Þeim markmiðum nær háskóli ekki án bandamanna og því að eiga greiðan aðgang að atvinnulífinu. Lykilatriði í þessu tilliti er trúverðug forusta háskólaráðs út á við. Af sjálfu leiðir að henni verður best náð með því að ráðið sjálft hafi á að skipa fulltrúum sem geta verið öflugir málsvarar háskóla á öllum framangreindum sviðum. Eru þetta helstu rökin fyrir því að ráðið hafi á að skipa breidd í utanaðkomandi fulltrúum ... [leturbreytingar mínar].

Hvernig á að velja slíka einstaklinga? Trúverðuga einstaklinga með góð tengsl hingað og þangað? Hverjir eru þeir? Af hverju er ekki skynsamlegt að vísindamenn stjórni vísindastofnunum - rétt og eins og fólk með banka-, viðskipta- og hagfræðimenntun og reynslu af því að starfa á þeim vettvangi stýri bönkum? Og húsasmiðir byggi hús? Eða hef ég rangt fyrir mér? Hefðu bankarnir alls ekki tapað ef ég hefði farið að stjórna þar? Og sennilega Eimskip og FL Group, nú Stoðir, tveir met-taparar ársins 2008 ef ég hef skilið fréttir rétt, ekki tapað jafnmiklu og raunin varð á ef ég hefði stjórnað þeim eða setið í stjórn þessara fyrirtækja? Háskólar og skipafyrirtæki eru hins vegar ólík fyrirtæki þar sem ólíka sérþekkingu þarf til að ná árangri á hvoru sviði. Hefði ég haldið.

Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskips og hefur líka verið með margvíslegan atvinnurekstur á Akureyri og var þar áður hjá Samskipum að því er ég best veit, hefur nú um nokkurra ára skeið setið sem fulltrúi menntamálaráðherra í háskólaráði Háskólans á Akureyri. Á síðasta ári, og áður en hann var endurskipaður í háskólaráðið, hætti hann hjá Eimskipi, fékk feitan starfslokasamning eftir því sem fréttir herma. Í ljós kom að Eimskip „átti" næstmesta tap íslensks fyrirtækis á einu ári, hafi ég tekið rétt eftir. Baldur var í fréttunum fimmtudaginn 5. febrúar vegna „big-time klúðurs" hjá Eimskipi eins og fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins (Viðskipti, bls. 5) hjóðar. Hann krefst nú fyrir dómi einnar milljónar evra (um 160 milljónir króna) vegna vangoldinna launa. Upphæðin sem Baldur krefst er um 50% hærri en niðurskurðurinn sem Háskólinn á Akureyri varð fyrir frá fjárlagafrumvarpinu sl. haust þar til fjárlögin voru samþykkt í desember (7,1% eða um 105 milljónir króna, sjá fyrra blogg). Félagið mun hafa hætt að greiða honum eftir starfslokasamningnum þegar í ljós kom hversu „big-time" klúðrið var. Um réttmæti þess dæmi ég ekki, heldur dómstólar. En samanburðurinn á þessum tveimur tölum er fremur kostulegur og ekki til þess fallinn að telja mér trú um að breytingin á skipan háskólaráðs sé réttmæt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk fyrir þessa færslu Ingólfur, margt í niðurlagi hennar sem ég hef velt fyrir mér undanfarið. 

Bestu kveðjur

Aðalheiður Ámundadóttir,

fulltrúi nemenda í háskólaráði Háskólans á Akureyri

Aðalheiður Ámundadóttir, 18.2.2009 kl. 08:57

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Aðalheiður, gangi ykkur í háskólaráðinu vel að velja góðan rektor  Reyndu að fá því hreyft þannig við fáum að kjósa rektor eftir góða kynningarfundi þar sem rektorsefnin myndu kynna stefnu sína og starfshætti.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 18.2.2009 kl. 18:17

3 identicon

Góðar pælingar Ingólfur. Í sambandi við menntun bankamanna þá held ég að tap þeirra hefði ekki orðið svona mikið EF þeir hefðu haft fólk með banka-, viðskipta-, og hagfræðimenntun í fararbroddi. Í staðinn voru þeir með fjárfestingaspegúlanta með tölvunarfræðimenntun og guð má vita hvað.

Hæfasta fólkið til að stýra háskólum er að sjálfsögðu fræðimenn innan stofnananna! „Greiður aðgangur að atvinnulífinu“ hlýtur að geta fengist með öðrum leiðum.

Þóra Bryndís Þórisdóttir 18.2.2009 kl. 21:16

4 identicon

Þetta er merkileg samatekt og segir í raun ansi mikið. En og aftur kemur í ljós hvað Sjálfstæðisflokkurinn er ótrúlega "2007" og velur stöðugt leiðir sem þjónkast ákveðnum öflum fremur en taka faglega á málum. Með þessu tókst þeim líka að koma þjóðinni á kaldan klakann. En það sem mér þykir þó enn merkilegra er að það virðist alveg vera sama hvað þetta lið gerir. Það virðist alltaf vera þriðjungur þjóðarinnar sem veitir þeim brautargengi til að vinna  óhæfuverk sín. Það er því miður margt sem bendir til að þó þeir væru staðnir að mannáti í Valhöll myndi fylgi þeirra lítið minnka. Það segir a.m.k. dr. Gunni. En ég vona svo sannarlega að skólinn fái góðan rektor sem heldur áfram að efla skólann og gera hann sterkan og valið heppnist með, með eða án aðstoðar snillinga úr atvinnulífinu.

Friðrik Dagur Arnarson 18.2.2009 kl. 21:55

5 identicon

Sæll Ingólfur og þakka þér fyrir áhugaverðan pistil.

Það verður seint sagt annað en að rekstur háskóla sé rammpólitískt dæmi. Mér þykja það uggvænlegar upplýsingar að einungis einn vísindamaður skuli skipaður af þessum 7.

"hér sé fylgt evrópskri leið til breytingar sem Ríkisendurskoðun og úttektaraðilar leggi á beinan og óbeinan til að hér sé fylgt."

Með fullri virðingu fyrir nauðsyn eftirlits og/eða Evrópskum stöðlum í þessu efni þá er það ekki til góðs að stjórnin komi utan frá að svo miklu leyti.

Stefna skólans og áherslur ættu þegar að lögbundnum námskjarna hefur verið fullnægt að vera að mestu leyti á höndum þeirra sem kenna við skólann.

bkv.

sandkassi 19.2.2009 kl. 03:02

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sælir Friðrik Dagur og Gunnar, þakka ykkur sjónarmið og ábendingar. Má kannski koma fram að einn af tveimur handvöldum af ráðinu sjálfu er Páll Skúlason fv. rektor HÍ. Hann er auðvitað vísindamaður og ég geri ráð fyrir að seta hans í háskólaráðinu sé HA til hagsbóta - en skipunarferlinu finn ég engu að síður að. Hinn fulltrúinn sem ráði valdi sjálft er Helga Hlín Hákonardóttir sem ég held að sé bankakona hjá Saga Capital, sem er reyndar fyrirtæki sem hrundi ekki þótt ég viti lítið um það annað. Og hinn fulltr. menntamálaráðherra er Ólöf Nordal alþingismaður fyrir, nema hvað, Sjálfstæðisflokkinn.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.2.2009 kl. 07:39

7 identicon

Takk fyrir þessar hugleiðingar Ingólfur. Einkum þótti mér niðurlag þessarar færslu afar athyglisvert. Það eru feiri en þú í háskólasamfélaginu sem hafa velt vöngum yfir samhengi þessara hluta. Vissuleg hefðu margir viljað hafa hlurtum öðruvísi háttað en að hafa einungis tvo innahúss fulltrúa í háskólaráði. 

Mig langar að koma því á framfæri hér (ég hef rætt það við þig áður) að háskóli er ekki bara vísindastofnun - raunar hygg ég að það sé rétt að vísindahlutinn sé formlega séð ögn veigaminni en kennsluhlutinn þegar upp er staðið. Það er líka hollt að muna að háskólaráð er það batterí sem hefur í raun síðasta orðið um nám og kennslu, rannsóknir, rekstur, þróun og vöxt og viðgang skólans almennt. Það er rétt að það komi líka fram að 1/3 þeirra sem starfa við HA sinna ýmsum þjónustustörfum sem fram að þessu hafa verið talin nauðsynleg til að líf stofnunar eins og háskóla gangi upp í daglegu starfi. Þetta fólk hefur t.d. ekki kjörgengi til háskólaráðs. Eins og við vitum var þessum starfsmönnum gert kleift með miklum krókaleiðum að kjósa um fulltrúa sinn í háskólaráði núna síðast en auðvitað ekki fulltrúa úr eigin röðum. 

Mér fannst bara rétt að benda á þetta "lýðræði"  sem notað er árið 2009 --í  miðju orðasalatinu um vísindamennskuna og allt það. Misskildu mig ekki,- rannsóknir og vísindi eru nauðsynleg en s.s. þrífast ekki í lofttæmi.

Besta kveðja frá vinkonu þinni, Solveigu Hrafnsdóttur náms- og starfsráðgjafa við  Háskólann á Akureyri

Solveig Hrafnsdóttir 19.2.2009 kl. 09:53

8 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæl Solveig, ég held að þetta sé mikilvæg ábending frá lýðræðislegum sjónarhóli. Svo var ég að ræða þetta við fólk hér í Þingvallastrætishúsi Háskólans og einhver stakk upp á því að það væri alls ekki óeðlilegt að samfélagið hér í kring ætti fulltrúa sem kæmi nálægt stjórnun Háskólans. Ég hef í sjálfu sér ekki tekið afstöðu til þess - en held að þetta fyrirkomulag sem var núna tekið upp sé alveg afleitt.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.2.2009 kl. 11:28

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæl Þóra Bryndís, athugasemdin þín var að birtast núna - mig reyndar grunaði þetta að það hafi kannski alltaf verið bankafólk sem vann "ódæðin", það hefði kunnað betur til verka.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.2.2009 kl. 12:15

10 identicon

Ég er alveg sammála í meginatriðum og þætti mér líka eðlilegra að rektor væri valinn af öðrum og stærri hópi heldur en Háskólaráði í þessu tilviki, einnig með tilliti til þessara skipunarúrræða þar sem að 2 eru skipaðir af stjr og 2 til viðbótar má gera ráð fyrir að lúti þeim reglum sem ráðuneytið setur um skipannir þeirra (með fyrirvara um að hafa ekki kynnt mér þær reglur).

Hættan á miðstýringu er alltaf fyrir hendi og þarna má leiða líkum að 4 manna meirihluta (aftur með fyrirvara og líklega að teygja mig talsvert-:).

Ættu áherslurnar að vera frekar til þess að ýta undir sjálfstæði Háskólastofnanna þykir mér þar sem að það er einfaldlega vænlegra til árangurs heldur en andstæðan sem er miðstýrð og flöt menntastefna sem tekur lítið tillit til sérhæfingar. 

sandkassi 19.2.2009 kl. 12:28

11 Smámynd: ADHD

Nú er kominn nýr ráðherra í menntamálin - er ekki vopnabúr í þeim Trójuhesti? Hægt að þrusa loftsteini á risaeðlurnar í háskólaráði? Semsagt sammála Ingólfi. Og ber enga virðingu fyrir evrópskum stöðlum og eftirliti (sbr. fyrri færsla Gunnars) sem eru álíka mikil afurð nýfrjálshyggjuvæðingar menntunar eins og hugtakið skilvirkni. Við erum fjölmörg sem höfum talað gegn þessum óskapnaði árum saman, þ.e. markaðsvæðingu menntunar, og þorum ekki enn að vera glöð enda ekki til aur og varla vilji til að snúa við blaðinu - ofríkið (alræði fjármagnsins) sem var ríkjandi heitir þöggun í greiningardeildum háskóla.

ADHD, 20.2.2009 kl. 23:52

12 identicon

Hér var einfaldlega vísað lauslega í eftirlit, vottannir og stjórnsýslu. Þetta eru ekki hlutir sem tengjast "nýfrjálshyggjuvæðingar menntunar" er ég hræddur um.

Ég er því ekki að sjá neina tilvísun í mitt mál "(sbr. fyrri færsla Gunnars)".

sandkassi 21.2.2009 kl. 00:12

13 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Gunnar og ADHD: Líklega er fyrirlestur minn um Valdið í orðræðunni innlegg í "deilu" ykkar: http://www.ismennt.is/not/ingo/valdord.htm.

"Þöggunin" hefur komið að innan en með háskólaráði utan frá eykst hættan á því að þöggunin verði opin, sbr. þá staðreynd að það var eitt af fyrstu verkum nýs háskólaráðs við HA að gútera stórlega minnkun rannsóknarmissera og þannig á óbeinan hátt rannsóknarfrelsis (sjá fyrra blogg). Ég hef af því meiri áhyggjur en evrópsku Bolognastöðluninni og gæðakerfunum - en það stafar kannski af því að ég veit að það eru pappírstígrar. Ein hlið þess er sú að það er stórum auðveldara fyrir háskólastúdenta að færa sig á milli skóla með samhæfðum einingakerfum og einsleitri framsetningu á prófskírteinum. Það er jákvæð hlið.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.2.2009 kl. 01:30

14 identicon

Já, gallinn er alltaf að allt kostar þetta víst. Samræmingin er vissulega góð og ætti að koma í veg fyrir að þurfi að setja kúrsa upp í töflur milli skóla. Á móti kemur eins og þú segir yfirbygging og oft rangar áherslur löng ákvarðanaferli og langar boðleiðir.

En Menntastefnan í landinu er sú að skólastofnannir eigi að hafa töluvert sjálfstæði. Það eru kannski öfugmæli að það þurfi yfir í vinstrisinnaðan ráðherra sem er á móti ESB til þess kannski að breyta áherslum (minnka miðstýringu-:). Nei nei ég segi svona.

En það er rétt að hafa áhyggjur af fé sem veitt er til rannsókna vs. öðrum þáttum þar sem að líklega er fátt jafn mikilvægt til að halda uppi ferskum hugmyndum og nútímalegum vinnubrögðum.

Það gæti komist á sú hugsun að sækja ætti um allt fjármagn og leyfi til rannsókna í Brussel, úff.

sandkassi 21.2.2009 kl. 02:30

15 Smámynd: ADHD

Nei Gunnar ég var ekki að deila á þig, fannst bara rakið að nota setninguna þína "Með fullri virðingu fyrir nauðsyn eftirlits og/eða Evrópskum stöðlum ..." til að koma á framfæri virðingarskorti mínum fyrir því hinu sama. Á sama róli og þú enda örlar yfirleitt fyrir háði þegar maður notar orðasambandið með fullri virðingu, ellegar að maður notar það til að bæta við "en".  

ADHD, 21.2.2009 kl. 12:00

16 identicon

mögulega hefur þú rétt fyrir þér að örli fyrir háði hjá mér. Persónulega þykir mér eltingaleikur við Evrópska samvinnu í menntamálum ekki ýkja fýsileg. Ég hef heyrt ótrúlegasta fólk lýsa því yfir að þar séu allir kostirnir í rekstri Háskóla.

Allt eru þetta bara hlutir sem urðu ekki til með tilkomu Evrópusambandsins, vottun, eftirlit, samvinna milli skólastofnanna og fræðimanna ect. En oft er eins og að fylgjendur aðildar að sambandinu vilji halda því fram.

Það er ekki til góðs að loka slík kerfi af inn í svona bandalagi, þau eiga að vera opin eins og þau hafa alltaf verið. Það er erfitt að færa rök fyrir því að talist geti eðlilegt að meina þjóðum aðgang að slíku samstarfi þar sem að það bryti einfaldlega í bága við samþykktir Sameinuðu Þjóðanna og hina ýmsu Genfar-sáttmála en þar liggur lögsagan að mínu mati.

Benda mætti á Soviet sem lokaði af starf sinna vísindamanna. Þegar að landið opnaðist þá lá fyrir haugur af rannsóknarniðurstöðum til áratuga sem voru illa samræmanlegar rannsóknarstarfi í öðrum löndum. Þetta er kannski öfgafullt dæmi en engu að síður umhugsunarefni þegar fjallað er um lokuð (eða því sem næst) kerfi.

Ég er alveg sammála ykkur ADHD og Ingólfi og þykja mér rangar áherslur auðveldlega geta skapast þegar að Stjórn er skipuð að svo stórum hluta af ráðherra eða fyrir beina tilstilli hans/hennar. 

Það að fjármagn sé skorið niður til innri starfssemi skólastofnunar til þess að mæta einhverju alþjóðlegu beurakrati er fremur uggvænleg þróun og bendir til þess að einhversstaðar sé hugarfarið ekki í lagi.

sandkassi 21.2.2009 kl. 13:09

17 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk fyrir þetta, ég ætla að prenta þetta alltsaman út og lesa fyrir hvern háskólaráðsfund, svona til að hita upp... Þetta er afar þörf umræða.

Ég hef sjálf haldið því fram innan og utan háskólaráðs, að mín prófgráða gjaldfalli ef hún kemur frá úreldri stofnun sem endurnýjar ekki þekkinguna með öflugum rannsóknum. 

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.2.2009 kl. 13:18

18 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlit og umræður, ADHD, Gunnar og Aðalheiður

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.2.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband