Alcoa kveinkar sér

Alcoa kveinkar sér undan þeirri kröfu Náttúruverndarsamtaka Íslands að gerð sé undanbragðalaus grein fyrir því hvaðan orkan í álverið við Húsavík muni koma; heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers merkir nefnilega að gera skuli grein fyrir ÖLLUM áhrifum, ekki bara því sem hentar til að fá að byggja álverið.

Ég heyrði áðan í fréttum Ríkisútvarpsins að fulltrúi Alcoa kveinkaði sér svolítið undan athugasemdum Náttúruverndarsamtakanna en viðurkenndi um leið í raun að það er ekki svo mikið vitað um hversu mikil orka er fáanleg af háhitasvæðunum. Já, og hvað um Gjástykki? Mér sýnist Landsvirkjun ætla þangað, sbr. blogg mitt í gær. Hvað um hin háhitasvæðin, það er við Þeistareyki, Kröflu og Leirhnjúk? Náttúruverndargildi svæðanna er ótvírætt og líklegt er að til lengri tíma litið sé þar einnig hægt að skipuleggja ferðamennsku sem gefi meiri tekjur en orkusala til álvers, sem er þó aukaatriði miðað við náttúruverndina, en skiptir þó miklu máli í heildarmyndinni.

Krafan til Alcoa er skýr: Gerið grein fyrir því hvaðan þið ætlið að fá orkuna fyrir álverið Fyrr er ekki hægt að taka afstöðu til umhverfisáhrifanna.

Hitt er svo annað mál og ekki heldur smátt: Það fylgja álveri gríðarleg samfélagsleg áhrif af afar margvíslegum toga, t.d. þegar svo stór vinnustaður sem fyrst og fremst ræður karla til vinnu kemur í byggðarlag. Jafnvel þótt Alcoa takist að setja nýtt "heimsmet", t.d. 29%, í að ráða konur til starfa í álverinu og fá nýja jafnréttisviðurkenningu íslenskra stjórnvalda er það gríðarlegur kynjahalli að hafa svo stóran vinnustað sem álverið yrði með yfir tveimur þriðju hlutum af öðru kyninu og getur haft umtalsverð áhrif á stöðu jafnréttismála í byggðarlaginu. Hér er eigin lofræða Alcoa um jafnréttisviðurkenningu sem fyrirtækið fékk fyrir álver sitt við Reyðarfjörð.

Alcoa er auðvitað nokkur vorkunn; fyrirtækið þarf talsverðan fjölda fólks og mér finnst líklegt að það hafi þurft enn þá meira fyrir því að hafa að ráða konur til starfa en karla. Í því ljósi þarf fyrirtækið virka jafnréttisstefnu og þegar hún er svo ómerkileg víða annars staðar er kannski ekki furða þótt Alcoa sé verðlaunað á þessu sviði. Þess háttar jafnréttisstefna til hagsbóta fyrir fyrirtækið réttlætir aftur á móti ekki þau stórkostlegu náttúruspjöll sem voru framin á hálendi Austurlands.


mbl.is Krefja Alcoa um svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég hef til þessa verið hlynntur stóriðju, en ég held að úr þessu sé best að fresta öllum virkjunum og stóriðju um óákveðinn tíma.

Best er fyrir þjóðina, að hún finni til tevatnsins, hvað atvinnuleysi varðar áður en lengra er haldið í uppbyggilegri atvinnustarfsemi á borð við stóriðju eða orkufrekan iðnað, sem skilar útflutningstekjum og alvöru launum og alvöru framlegð til þjóðarbúsins.

Við skulum leyfa því fólki, sem heldur að hægt sé að leysa málin með einhverskonar "sprotastarfsemi". Það væri fínt að leyfa þeim að spreyta sig næstu 2-3 árin og sjá hvernig þeim verður ágengt.

Í kvöld var t.d. athyglisverð frétt í Ríkissjónvarpinu um Jarðgerðarstöð  í Eyjarfirði. Aðstandendur verksmiðjunnar segja markmið stöðvarinnar að breyta rusli í peninga. Afkastagetan á að vera 13.000 tonn á ári og er hugsanlega hægt að nota þetta efni sem áburð eða til uppfyllingar.

Hér er um samvinnuverkefni atvinnulífs og sveitarfélaga. Ferlið er þannig að fluttur slátur- og fiskúrgangur í verksmiðjuna, þar sem hann er hakkaður og malaður og blandað saman við stoðefni, sem t.d. er garðúrgangur. Síðan meltist úrgangurinn í í 8-10 sólarhringa og "þroskast" síðan í enn lengri tíma. 

Ekki kortlagt enn nákvæmlega kortlagt hvað á að gera við "afurðina", en "vonir" standa til að hægt sé að nota þetta til áburðar eða sem jarðveg?

þróunarverkefni er síðan framundan til að reyna að finna út úr hvað er hægt að gera við úrganginn.

Eflaust er þetta síðan allt styrkt af Iðntæknistofnun og Byggðastofnun og af sveitarfélögunum í nágrenninu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.11.2008 kl. 23:45

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér ítarlegt innlegg, Guðbjörn

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.11.2008 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband