Að vera vitur eftir á - eða fyrir fram

Hinar miklu hamfarir bankakerfisins virðast koma flestum á óvart og valda okkur öllum vonbrigðum og mismunandi miklum efnahagslegum áföllum – en áttum við að vera hissa? Ekki við sem höfum lesið marxísk fræði; við vitum um það eðli auðvaldsskipulagsins að það verða kreppur þar sem margir verða illa úti. Við vitum líka að það væri í grundvallaratriðum rangt að dæma í öllum tilvikum í einstaklingana sem vissulega kunna að vera valdir að þeim óförum sem bankarnir nú lenda í, því að það er kerfið, hugmyndafræði einkaeignarinnar, sem veldur óförunum, en ekki misvitrar gjörðir bankafólksins, þótt slíkar misvitrar gjörðir hafi ábyggilega verið fjölmargar. Auðvitað er rétt að ná með lögum yfir þá sem hafa hagað sér glæpsamlega og ef til vill komið fjármunum sínum undan á óheiðarlegan hátt.

Nú um stundir er rétt og mikilvægast að endurskoða hina pólitísku stefnu áður en fleiri félagsleg kerfi eru einkavædd. Síðustu daga hefur nefnilega komið í ljós að í raun er banka- og fjármálakerfið líka félagslegt kerfi – sem þarf að vera gangandi til að fólk og fyrirtæki geti gengið að sínum daglegu störfum.

Við vinstri græn vildum ekki einkavæða bankana og alls ekki með þeim hætti sem það var gert. Við vinstri græn erum því ekki vitur eftir á – heldur vitur fyrir fram. Reyndar tala ég ekki hér sem talsmaður flokksins þannig ég man ekki nákvæmlega hvað vinstri grænu forystumennirnir sögðu; þannig man ég ekki fyrir víst hvort alþingismenn flokksins lögðu áherslu á til þrautavara að einkavæða bara annan ríkisbankann í einu, þ.e. Búnaðarbankann eða Landsbankann. En ég man að sumt af því sem vinstri græn sögðu var afgreitt sem afturhalds- og svartsýnisraus. Enda held ég fáa hafi órað fyrir þeim hamförum sem átt hafa sér stað síðustu daga – nema kannski þá sem best héldu við marxismanum sínum.

mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þeim sem hafa lesið bók Jóhannesar Björns, Falið Vald kemur ekkert af þessu á óvart heldur, en í henni sýnir hann okkur hvernig kreppur eru "skapaðar" í ákveðnum tilgangi, fátt gerist fyrir tilviljanir þegar kreppur og stjórnmál/peningamál eru annars vegar eins og reynt er ávallt að telja okkur trú um.

Georg P Sveinbjörnsson, 8.10.2008 kl. 13:47

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar, Sigurður og Georg. Ég las Falið vald á sínum tíma og þótti góð.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.10.2008 kl. 14:52

3 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þú getur kannski upplýst Ingólfur hvað olli hruni alþýðulýðveldanna fyrir austan Járntjaldið? Þar ríkti að vísu samfelld kreppa áratugum saman - heldurðu að það sé nokkuð að henda okkur? Ef einhverjir "skapa" kreppur í "ákveðnum tilgangi" þá er nú lítið gefandi fyrir marxísku fræðin, ekki satt?

Gústaf Níelsson, 11.10.2008 kl. 00:09

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll, Gústaf skólabróðir úr sagnfræðinni, langt síðan við höfum hist eða heyrst! Ég held því nú reyndar ekki fram að kreppur séu skapaðar, eins og sumir aðrir halda fram, og þótt ég telji engu að síður að Falið vald sé upplýsandi bók þá minnir mig hún væri með meiri samsæriskenningum en ég ætla að endilega að skrifa undir þær allar eða að slíkar skýringar séu marxískar skýringar. Kreppur og hagsveiflur eru eðli kapítalismans vegna þess hversu vöxtur er mikilvægur hluti hans. En Gústaf: Hvað er líkt með austantjaldslöndunum og Íslandi? Ég átta mig ekki á samlíkingunni, en vissulega vona ég að atburðirnir nú verði til þess að við endurskoðum gildin og höfnum þess háttar markaðshyggju sem hefur valdið þessu hruni íslenska fjármálakerfisins með stórtjóni fyrir fjölda fólks og tilfinningalegum áföllum sem auðvaldinu er sama um!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 11.10.2008 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband