Að fikta við náttúru Mývatns

Á sjöunda áratug síðustu aldar hófst námuvinnsla úr Mývatni í því skyni að búa til kísílgúr í verksmiðju í Bjarnarflagi rétt austan vatnsins. Á sama tíma voru virkjaðar jarðhitaborholur þar skammt frá vegna þurrkunar kísilgúrsins og var vatnið líka notað til upphitunar húsa og til framleiðslu á þremur megawöttum rafmagns. Námuvinnslunni var hætt fyrir örfáum árum, meðal annars eftir að niðurstöður rannsókna sýndu að hún ein var nægileg ástæða hnignunar lífríkis Mývatns. Og þótt ýmsu hafi farið fram í lífríkinu er langt í land að bleikjustofninn í vatninu nái sér, ef hann gerir það nokkurn tíma. Um þetta hafa verið skrifaðar ótal blaðagreinar; nokkrar þeirra eru hér og hér.

Nú standa yfir miklar boranir eftir jarðhita í Bjarnarflagi á vegum Landsvirkjunar og samkvæmt úrskurði frá febrúar 2004 um mat á umhverfisáhrifum telur Skipulagsstofnun óhætt að reisa 90 megawatta virkjun í Bjarnarflagi, að vísu með allströngum skilyrðum sem varða ekki síst að fylgst verði með því hvort streymi volgs grunnvatns til Mývatns breytist. Nú má spyrja hvað verður síðan gert ef það kemur í ljós að vatnið úr holunum hefur skaðleg áhrif á lífríkið: Verður virkjunin tekin niður og álveri háð því rafmagni lokað að hluta? Reyndar minnir mig að það eigi að reisa þessa virkjun í áföngum – en hversu lengi verður beðið með síðari hlutann? Nægilega lengi til að sjá að sá fyrri hafi ekki skaðað neitt?

Og nú berast hugmyndir eigenda Reykjahlíðar um 50 megawatta virkjun rétt þar hjá sem Kísiliðjan var. Er rétt að halda áfram að fikta við náttúru Mývatns endalaust?

Áhættan af virkjunum á þessum slóðum er mjög mikil og hún er í rauninni ekki ásættanleg, jafnvel þótt Skipulagsstofnun telji hana ekki umtalsverða samkvæmt lagaskilningi á því orði. (Með skilyrðum sínum viðurkennir Skipulagsstofnun áhættuna.) Lífríki Mývatns er eitt mikilvægasta lífríki landsins sem þar að auki á að vera verndað samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að vegna fjölbreytileika síns og einstaks náttúrufars, bæði lífríkis og jarðmyndana. Vatnið og nágrenni þess er eitt af þremur svæðum á skrá Ramsarsáttmálans um verndun votlendissvæða; hin eru Þjórsárver, á undanþágu vegna virkjanahugmynda sem enn er ekki búið að gera endanlega út af við, og Grunnafjörður. Vatnið er því ekki einkaeign heldur alheimsgersemi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Góður pistill Ingólfur og orð í tíma töluð. Menn þurfa ekki að vera náttúruverndarfasis... til að vera þessu sammála.
Til skamms tíma héldu menn að vatnið í Þingvallavatni væri ómengað. Þar gæti verið til staðar gífurlegt magn neysluvatns ef rétt er á haldið. Hins vegar virðist sem Nesjavallavirkjun sé að dæla miklu magni af kvikasilfri og öðrum þungmálmum út í vatnið, sem fram kemur við mælingar t.d. í urriðanum í vatninu. Er það þetta sem við viljum?

Júlíus Valsson, 18.9.2008 kl. 10:26

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sæll Júlíus og þakka þér innlitið, okkur hættir mjög til að gleyma því sem er að gerast við Nesjavelli og í Þingvallavatni, en ef til vill kom margt af þessu ekki í ljós fyrr en talsvert löngu á eftir að virkjanirnar voru teknar í notkun

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 18.9.2008 kl. 11:15

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það vantar stórlega alla fræðslu í grunn-og framhaldsskólum okkar um þetta mikilvæga verkefni þar sem hver dagur er dýrmætur.

Árni Gunnarsson, 21.9.2008 kl. 23:03

4 identicon

Sæll Ingólfur.

Það er gott og þarft að fólk ræði opinskátt um náttúruvernd og þær ógnir sem umhverfinu stafar af framkvæmdagleði manna.
Það er hins vegar svo að þegar slík mál eru rædd þá er betra að fara rétt með því rangur eða ónákvæmur málflutningur leiðir umræðuna á villigötur. Þeir sem ráfa í villu koma nefnilega sjaldnast á ætlaðan áfangastað.
Að því sögðu, umræðan um Kísiliðju og orkuvinnslu við Námafjall er búinn að vera fyrirferðamikil lengi og margar skoðanir á lofti.
Þú fullyrðir í þessu bloggi að rannsóknir hafi sýnt að námavinnsla í Mývatni sé orsakavaldur í hnignaði lífríki, þessu vil ég mótmæla.
Ein kenning sem menn hafa hent á lofti, en mjög umdeild, var sett fram um setflutninga í vatninu, og  það að setið settist í "gryfjur" eftir dælingu sem svo hefði sem afleiðingu neikvæð áhrif á lífríkið.
Kenningin er í sjálfu sér ekki slæm útfrá líffræðilegum forsendum en gengur bara alls ekki upp af eðlisfræðilegum ástæðum.
Lífríki Mývatns er í dag með ágætum og hefur oft verið í gegnum tíðina. Eina undantekningin er afkoma bleikjustofns en þar skulda líf og fiskifræðingar okkur svör um samanburð Mývatns við önnur vötn á Ísland, veiðiþol og fisksjúkdóma.
Af affalli jarðhitasvæðisins er það að segja að þrátt fyrir áratuga rannsóknir hefur ekkert komið fram sem styður fullyrðingar nokkurra spekúlanta um mengun og jafnvel meintan dauða Mývatns af þess sökum.
Þvert á móti er það þekkt staðreynd að hið auðuga lífríki vatnsins byggir á efnainnihaldi þeirra volgu strauma sem í það renna.
Magn grunnvatns sem rennur um þetta svæði er gífurlegt, svo mikið að þynning efna t.d. frá Kísiliðjunni hefur aldrei komið fram í neinu merkjanlegu mæli.
En í áætlun Landsvirkjunar um Bjarnarflagsvirkjun kemur samt fram að dæla á því viðbótar vatni sem falla mun til við aukna vinnslu niður í jörðina aftur svo það jafnvægi sem nú er á ekki að raskast.
Þrátt fyrir að engar byggingaframkvæmdir séu enn hafnar við Bjarnarflagsvirkjun þá hefur Landsvirkjun lokið við borun á niðurdælingarholu svo mér sýnist að mikil alvara sé á bakvið áform þeirra og vilji til að tryggja að engar óvæntar uppákomur eigi sér stað
Um önnur virkjunaráform er lítið að segja á þessari stundu nema hvað að ólíklegt þykir mér að nýir aðilar muni fá leyfi til virkjunar nema með vandaðri áætlun um förgun affallsvatns og niðurdælingu.
Nú mætti spyrja, hvað er ég að fara með þessari umræðu?
Svarið er, - það eru önnur málefni ekki síður mikilvæg sem þarf að hafa í huga varðandi lífríki Mývatns.
Mætti þar benda á mun augljósari hættur s.s. ef olíubíll veltur eða fer að leka á á þjóðveginum í kringum vatnið.
Hvernig ætla menn að bregðast við því?
Er eðlilegt að landeigendur á svæðinu eða sveitarfélagið í heild þurfi að þola endalausan ágang ferðafólks án þess að nokkuð fjármagn eða bætur komi til varðandi göngustíga, áningastaði, salernisaðstöðu eða annað sem til þarf.
Smekkleg virkjun á röskuðu svæði í Bjarnarflagi eða við Námafjall er að mínu mati töluvert umhverfisvænni en slóð af klósettpappír og rusli meðfram niðurníddum gönguslóðum! Landverðir og áhugasamtök vinna gott og þarft starf, en mikið óskaplega er illa hlúð að verkefnum þeirra.
Mitt ráð til þeirra sem láta sig umhverfisvernd varða, hættið að berjast við vindmyllur eða lepja kokteila við borðaklippingar á nýjum þjóðgörðum.
Vinnið að raunverulegri náttúrvernd og því að sanngjörnu fjármagni sé veitt í alvöru  og brýn verkefni.

Kær kveðja

Jóhann F. Kristjánsson

Jóhann F Kristjánsson 22.9.2008 kl. 12:38

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka ykkur innlitið, Árni og Jóhann. Það er hárrétt hjá þér, Jóhann, að það steðja margar hættur að vatninu, og ein af þeim er vitanlega olíuflutningar, mikið áhyggjuefni sem ég vona að þar til gerð yfirvöld hafi til viðbragðsáætlanir við. Ferðamennska skapar líka ógnir eins og hún skapar tækifæri. Og það getur líka verið að við Mývetningar höfum veitt of mikið af silungi miðað við veiðiþol.  Fyrir mér vakir að vara við virkjunum; það verður ekkert aftur snúið ef eitthvað fer úrskeiðis - en ekki afneita öðrum ógnum. Dæmið með námuvinnsluna á að vera viðvörun til okkur. En gott að vita um Landsvirkjun hefur borað niðurdælingarholu.

Og sem ég skrifa þetta svar sendir Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn mér eintak af grein sem heitir "High-amplitude fluctuations and alternative dynamical states of midges in Lake Myvatn" og birtist í tímaritinu Nature(Nature.com/nature) snemma á þessu ári, eftir Anthony Ives prófessors við Wisconsinháskóla, Árna og fleiri vísindamenn.  Í hnotskurn er sýnt fram á að mýið sé sérlega viðkvæmt fyrir minnstu breytingum á lífríkinu. Fram á þetta er sýnt með því að setja mælingar inn í stærðfræðilíkan. En þetta er ekki sönnun sem slík - heldur ansi sterk vísbending um orsök. Og í raun óhætt að fullyrða að námuvinnslan sé orsakavaldur, þótt vísindamennirnir segi það ekki - heldur er hún nægileg ástæða.

En hvur lapti hvaða kokkteil við opnun hvaða þjóðgarðs? Ég var við opnun Vatnajökulsþjóðgarðs og þar fengum við aðallega að smakka á afurðum úr Kelduhverfi og Öxarfirði.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.9.2008 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband