Björgólfur - segðu af þér!

Opið bréf til Björgólfs Thorsteinssonar formanns Landverndar:

Þær fréttir bárust að þú værir orðinn varastjórnarmaður í Landsvirkjun! Þetta er staðfest á heimasíðu Landsvirkjunar, því miður; ég hafði vonað að mér hefði misheyrst. Þetta vekur þá spurningu hvort þú sem Landsvirkjunarmaður ætlar að halda áfram að berjast með okkur gegn álveri á Bakka við Húsavík og tilheyrandi virkjunum? Ætlar þú að sitja fundi með öðrum náttúruverndarsinnum og náttúruverndarsamtökum - en fara svo þaðan á stjórnarfund Landsvirkjunar og vinna að gagnstæðum markmiðum? Ég bið þig að segja strax af þér sem formaður og stjórnarmaður í Landvernd til að þú rýrir ekki traust til samtakanna. Náttúruverndarsinnar áttu ekki von á því að einn af fyrirliðunum í þeirra hópi myndi skipta um lið.

Viðbót 22. apríl: Ég þakka þér, Björgólfur, útskýringar á því hvernig varastjórnarsetu þína í Landsvirkjun bar að. Ég virði að þú svaraðir mér ítarlega og ég virði líka að þú hefur ekki skipt um lið og leiðrétti það hér með. Ég er ekki jafn-bjartsýnn og þú um að þú getir áorkað miklu í stjórn Landsvirkjunar; vonandi hef ég rangt fyrir mér um það. Mín skoðun um að það sé fullkomlega ósamrýmanlegt að vera einn af helstu talsmönnum náttúruverndarhreyfingarinnar í landinu á sama tíma og að sitja í stjórn eða varastjórn Landsvirkjunar hefur hins vegar ekki breyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ingólfur.

Kannski veist þú meira en aðrir um setu Björgólfs þarna inni eða að þú ert að setja fram harða skilgreiningu sem á sér kannski enga stoð svo ég spyr:

Fyrir hverja fer hann þarna inn?

Getur ekki verið að hann ætli sér inn á forsendum þess að geta komið landverndarmálum á framfæri í skotgröfum andstæðingsins?

Hef nú samt alltaf lúmskt gaman að samsæringskenningum og þar sem Björgólfur hefur meiri hægri bláma á sér en grænan græðlings lit þá tek ég undir áskorun þína um það að hann svari fyrir sig.

Margrét 20.4.2008 kl. 19:34

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek undir með Margréti um að Björgólfur svari fyrir sig.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.4.2008 kl. 01:14

3 identicon

Heill og sæll Ingólfur,

Þakka þér fyrir bréfið.  Ég hefði helst kosið að þú hefðir haft samband fyrirfram til þess að fá skýringar...hvað um það.

Ég vil einnig þakka Margréti hennar skrif hér að ofan þar sem hún sýnir mikið innsæi.

Rétt er að það komi alveg skýrt fram að ég hef ekki "skipt um lið" eins og þú kallar það, Ingólfur.  Því fer víðs fjarri. 

Til upplýsinga þá bar þetta mál brátt að, reyndar mjög brátt að.  Svo virðist sem pólítísk öfl í landinu hafi viljað fá einhvern þarna inn sem gæti talað máli náttúruverndarinnar innan stjórnar fyrirtækisins.  Með þessu eru send ákveðin skilaboð.  Haft var samband við mig á elleftu stundu, eins og áður sagði.

Að sjálfsögðu hafði ég gert fyrirvara um hugsanlega hagsmunaárekstra, annað væri ekki hægt.   Svona þarf að skoða vandlega. 

Það er ekki rétt ályktun að yfirlýstur talsmaður náttúruverndarsjónarmiða sem kemur snögglega inn í varastjórn Landsvirkjunar sé þar með orðinn sammála öllum áherslum fyrirtækisins.  Ef til kæmi hefur hann ávallt þann kost að kjósa á móti meirihlutanum, eða að sitja hjá ef þannig ber undir.

Kostirnir eru þó greinilega þeir að geta gert náttúruverndinni hærra undir höfði innan stjórnar fyrirtækisins, og að hafa aðgang að stjórninni.  Þarna liggur ákveðið tækifæri til að koma sjónarmiðum að.   Maður þarf alltaf að vera trúr sinni sannfæringu.

Landvernd hefur ávallt haldið upp þeirri hefð að vera með "díalóg" við framkvæmdaaðila þessa lands (Vegargerðina, Orkufyrirtækin..), jafnvel þótt samtökin hafi ekki verið framkvæmdaaðilunum sammála.  Rökstuddar skoðanir, settar fram á málefnalegan hátt, er það sem dugir.

Stjórn Landverndar hefur hlustað á viðbrögð sem fram hafa komið, bæði innan og utan samtakanna.  Þau hafa verið bæði jákvæð og neikvæð.  Sumir hafa sett spurningamerki við hvort seta í varastjórn Landsvirkjunar og formennska í Landvernd fari saman. 

Það er eðlilegt að menn veltu málinu fyrir sér, þetta er óvenjulegt.  Til eru þó fordæmi fyrir því út í heimi að formenn eða framkvæmdastjórar umhverfisverndarsamtaka sitji í stjórnum stórfyrirtækja.  Ekki er víst að á Íslandi séu menn tilbúnir fyrir slíkt...það er mikil tortryggni í gangi milli ólíkra aðila eftir átökin undanfarin ár.

Minni á að komið er fordæmi þar sem Ásta Þorleifsdóttir situr í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Þar hefur hún gert góða hluti.  Þar eiga umhverfisöflin góðan fulltrúa í stjórn orkufyrirtækis.

Stjórn Landverndar mun koma saman til reglulegs stjórnarfundar nú á miðvikudaginn 23. apríl.  Þá mun gefast tækifæri til að fara vandlega yfir málið með stjórninni í heild.  Endanleg afstaða ræðst í framhaldi af því.  

Þannig liggur málið fyrir.

Með bestu kveðjum,

Björgólfur Thorsteinsson, formaður  Landverndar

Björgólfur Thorsteinsson 21.4.2008 kl. 10:51

4 identicon

Þetta er alla vega skoðanavinkill, Ingólfur?

Gísli Baldvinsson 21.4.2008 kl. 13:39

5 Smámynd: Þorsteinn Hilmarsson

Sæll Ingólfur,

Slæmt er ef rétt reynist að svona tengsl rýri traust góðra og gegnra manna og samtaka.  Víða liggja þræðir og erfitt að sjá við öllu sem gæti grafið undan traustinu. 

Landsvirkjun hefur um nokkurt skeið lagt fram verulegar fjárhæðir til reksturs Háskólans á Akureyri og hyggst gera það áfram.  Ég vona svo sannarlega að þú farir ekki að segja af þér sem prófessor við skólann af þeim sökum til að verja trúverðugleikann og traust mætra manna á þér. Þess eru þó dæmi að menn hafi brugðist þannig við.  Ég minnist Björns heitins á Löngumýri sem hafnaði því að Landsvirkjun greiddi fyrir hann lögfræðiaðstoð í aðdraganda Blönduvirkjunar með orðunum "Sá á hund sem elur!"

Kveðja,

Þorsteinn Hilmarsson

Þorsteinn Hilmarsson, 21.4.2008 kl. 17:10

6 identicon

Sæll Ingólfur!

Þú hefur fengið nokkrar athyglisverðar athugasemdir við skrif þín um setu formanns Landverndar í stjórn Landsvirkjunar.

Það vekur athygli að í athugasemd Björgólfs hér að ofan segir að pólitísk öfl í landinu hafi viljað fá einhvern í stjórn Landsvirkjunar sem gæti talað máli náttúruverndar. Mér leikur forvitni á að vita hvaða pólitísk öfl þar voru að verki?

Mér finnst sem sagt líta út fyrir að einhver pólitísk öfl hafi lagt snöru fyrir Björgólf sem hann hefur ekki áttað sig á að gæti orðið honum fjötur um fót. Einstakir stjórnarmenn Landsvirkjunar hafa gegnum tíðina talað máli náttúruverndar, án þess að hafa árangur sem erfiði, ég nefni Álfheiði Ingadóttur. Ég er því ekkí trúuð á að Björgólfur myndi ná meiri árangri en þeir sem hafa reynt þetta á undan honum.

Niðurstaða mín er því sú að nauðsynlegt sé að forystumenn náttúruverndarsamtaka haldi sig fjarri herráðum virkjanasinna, enda illt að vera tveggja þjónn og báðum trúr.

 Kv. Kolbrún

Kolbrún Halldórsdóttir 22.4.2008 kl. 10:23

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég held að Kolbrún hafi rétt fyrir sér. Minnist þess þegar Álfheiður sat í stjórn Lansdsvirkjunar og það var ekkert hlustað á það viðhorf sem hún var fulltrúi fyrir.

Ég á ekki von á að það breytist með Björgólfi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.4.2008 kl. 22:26

8 identicon

Þetta er fróðleg umræða. Sjálf hallast ég frekar að þeim leiðum að vinna með þeim aðilum sem maður vill að breyti um áherslur, fremur en setja málið þannig upp að maður þurfi að velja sér "eitt lið" og spila með því og vera þá um leið á móti öllum í "hinu liðinu". Það að vinna með þeim sem maður er ósammála um ákveðin grundvallaratriði er bæði erfiðari og flóknara en að stilla málum upp sem tveimur liðum sem eru með og á móti - en sjálf hef ég hinsvegar þá sannfæringu að til lengri tíma litið sé það líklegra til að skila einhverjum árangri.

Auður H Ingólfsdóttir 23.4.2008 kl. 17:19

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Þetta er athyglisverðasta mál. Ég er svo sannarlega sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur sem í áraraðir hefur haldið uppi sjónarmiðum náttúruverndarsinna á Íslandi gegn kapítalistunum. Það er illt að vera tveggja þjónn og báðum trúr.

Anna Karlsdóttir, 23.4.2008 kl. 22:30

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ég þakka margvíslegar athugasemdir sem hér hafa komið inn og bregst e.t.v. við einhverjum þeirra síðar eða annars staðar. Við fáum bloggfærslum hef ég fengið meiri viðbrögð hér eða í símtölum eða tölvupósti.

Ég vil þó bregðast við einu atriði sem snertir muninn á samvinnu og samráði annars vegar og því að sitja á tveimur stólum hins vegar. Um nákvæmlega það snýst mín gagnrýni á að talsmaður í náttúruverndarhreyfingu - formaður Landverndar - geti setið í stjórn þess orkufyrirtækis sem býsna mörgum náttúruverndarsinnum hefur þótt fara fyrir öðrum með hernað gegn landinu. Ég upplýsi hér með það sem ég hafði löngu gleymt að ég hef verið í þeirri aðstöðu að þurfa að biðjast undan því að sitja í stjórn stofnunar sem vinnur þjónusturannsóknir, m.a. fyrir orkufyrirtæki; ég baðst undan þessu til að eiga ekki á hættu að lenda í því að skaða annaðhvort málstað SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, sem ég hef gegnt formennsku í sl. átta ár, eða stofnunina.

Það kemur ekki fram hér að ofan hjá Björgólfi hversu brátt beiðni til hans um að setja í stjórn Landsvirkjunar bar að; það er hins vegar afar undarlegt að þau "pólitísku öfl" sem til hans leituðu hafi ekki gefið honum meiri umhugsunarfrest hafi þeim verið alvara um málstað náttúruverndar. Eða leitað til einhvers sem ekki er formaður í stærstu náttúruverndarsamtökum landsins og þar með ekki átt á hættu að skaða samtökin sín.

Ég hafna ekki samvinnu eða samtölum eða möguleikum til að hafa áhrif á stefnu orkufyrirtækjanna; auðvitað ekki. Það skiptir aftur á móti miklu máli hvernig að því er staðið. Og það skiptir máli á hvaða forsendum slík samvinna, samtöl eða samráð fer fram. Því sterkari sem forsendur náttúruverndar geta orðið, því betra.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 26.4.2008 kl. 22:10

11 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vel gæti eg trúað því að Björgólfur hefði með setu sinni í stjórn Landsvirkjunar haft áþekkt gildi og seta Álfheiðar Ingadóttur sem staðið hefur sig með mikilli prýði í Landsvirkjun. Aðgangur að upplýsingum og sú aðstaða að koma á breyttum áherslum í mikilsverðum málum hefði verið Landvernd mikilsvert. Nú er Björólfur hagfræðimenntaður maður og því vel að sér um hvernig lesa megi ársskýrslur. Framsetningu á ársskýrslum Landsvirkjunar hefði mátt færa til betri vegar, sundurliða meira en nú er gert. Þannig eru tekjustofnar Landsvirkjunar ekki mjög vel sundurgreindir, allt er í einni tölu: Raforkusala fyrir 2007 nam rúmlega 18,5 milljörðum. Þegar í ljós kemur að raforkusala til stóriðjunnar er um 75% hefði verið fróðlegt að sjá fyrir venjulegan mann hvernig tekjuskiptingin er. Fara þarf í mjög flókna útreikninga til að finna út einhverja tölu sem þó er ekki mjög nákvæm. 

Þannig eru framlagðir reikningar Landvirkjuar ekki í þann stakk búnir að geta verið góð og traust undirstaða gagnrýni eða skýringar. Gagnrýni á ekki að þurfa að vera neikvæð, hún getur þvert á móti einnig verið mjög þörf og öllum holl hver sem í hlut kann að eiga hlut að máli. Þá má ekki gleyma því að seta í stjórn gefur þeim rétt á að bóka það sem viðkomandi þykir ástæða til eins og þegar einhver ágreiningur kemur upp varðandi einstaka ákvarðanir.

Ef faglega er vel og rétt að málum staðið þarf ekki að koma fram hagsmunaárekstur þó seta formanns Landverndar í Landsvirkjun kunni að líta tortryggilega út. Bjórgólfur hefur sýnt í störfum sínum sem formaður Landverndar að hann er mjög varkár og vill vinna vel að þeim málum sem hann kemur nálægt.

Gagnrýni á Björgólf finnst mér bera nokkurn keim af fljóthugsuðum tilfinningarökum. Sjálfsagt vantar okkur Íslendinga góðar og traustar siðareglur sem taka til stjórnmálamanna og stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja. Þær gætu komið vel að notum undir þessum kringumstæðum. Þá væru tiltekin hvaða skilyrði hver þurfi að uppfylla til að vera talinn gildur við ákvarðanir og hvenær hann geti orðið vanhæfur að fara með mál. Ætli skortur á svona eðlilegum reglum veki ekki upp óþarfa tortryggni?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.5.2008 kl. 13:55

12 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér innleggið, Mosi góður. Nú er það svo að einmitt þær upplýsingar sem stjórnarmenn fá í hendur eru að hluta trúnaðarupplýsingar og kannski sérstaklega þess vegna er ómögulegt að sá sem er í forystu fyrir náttúruverndarsamtök sitji líka við stjórnarborð Landsvirkjunar. Forystumenn náttúruverndarsamtaka mega undir engum kringumstæðum vera bundnir trúnaði við annað en málstað sinn. Náttúruverndarsinni getur aftur á móti setið á slíkum stað og metið það meiri hagsmuni en minni þótt hann þurfi að þegja yfir einhverjum upplýsingum, einhvern tíma, hafi hann raunverulega möguleika á að hafa áhrif. Almennt er ég þó á móti slíkri leynd og óttast að nauðsyn viðskiptaleyndarmála sé teygð of langt, á kostnað upplýsingarskyldu.

Ég andmæli því, Mosi, að rök mín gegn stjórnarsetu Björgólfs hafi verið fljóthugsuð, en reyndar ekki því að í andmælum mínum hafi verið tilfinning. Hvort er skortur á reglum um hæfi og vanhæfi veit ég ekki en hér kemur tvennt til: Annars vegar að þetta mál snerist ekki eða snýst um hæfi og vanhæfi í þeim skilning sem reglur ná yfir heldur trúnað og traust - sem Björgólfur hefur viðurkennt í verki með því að hætta við að sitja í stjórn Landsvirkjunar. Að hinu leytinu hef ég oft orðið var við litla tilfinningu gagnvart því að oft er viðeigandi að túlka hinar formlegu reglur ekki alltof þröngt, segja sig frá málum til að skaða ekki málin, til að vekja ekki tortryggni um að hlutdrægni hafi átt sér stað.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.5.2008 kl. 22:45

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sæll Ingólfur og allir glöggir lesendur.

Vel gæti eg trúað að þau Álfheiður og Björólfur hefðu getað unnið mjög vel saman sem teymi þar sem áhersla er lögð á að Landsvirkjun sé ekki stjórnað af einhverri endalausri græðgi eftir sífellt meiri orku á kostnað náttúrunnar og gagnvart þeim sem vilja halda sem best í þá tekund gæða.

Á aðalfundi Landverndar voru tvö erindi sem mér fannst einna merkust. Annars vegar kom Stefán Arnórsson með varnaðarorð vegna þess að honum sem gamalreyndum jarðfræðingi finnst allt of hratt vera gengi gagnvart jarðhitanýtingu. Fyllsta ástæða er að hægja á hraðanum en er mjög mikil hætta á að eyðileggja jarðhitasvæðin með rányrkju. Jarðhitinn í Mosfellssveit var undir gríðarlegu álagi áður en Nesjavallavirkjun kom til sögunnar og ekki er séð fyrir hvernig sú þróun verður. Þar er fyllsta ástæða tilvarkárni.

Þá flutti Gísli Már Gíslason mjög gott erindi og lagði út af vegnaspottanum sem mikið hefur verið rætt um milli Þingvallaþjóðgarðs og Laugavatns. Hann kom víða við í erindi sínu og sérstaka athygli vöktu upplýsingar sem hann sagði frá og tengjast viðbúnaði Landsvirkjunar gagnvart hugsanlegum stóreldsumbrotum í vestanverðum Vatnajökli. Verið er að móta áætlun sem ganga út á það að veikja tilteknar stíflur á Tungnár/Þjórsársvæðinu með það fyrir augum að verja aðrar stíflur sem og virkjanir og rafmagnsmöstur. Hugmyndin er að beina gusunni inn í Þjórsárver sem er auðvitað það versta sem þeir sem aðhyllast náttúruvernd á íslandi geta hugsað sér. Einhvern veginn fær GMG vitneskju af þessum upplýsingum og hann beinir þeim áfram í erindi sínu á fundinum.

Það er einmitt þessi aðstaða náttúruverndarmanna að geta gengið greiðustu leið að upplýsingum sem e.t.v. verið er að leyna. Hlutverk stjórnenda er m.a. að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi þar sem upplýsingum er ekki leynt.

Vel gæti eg hugsað mér að Björgólfur verði áfram trúr þeim málstað sem hann hefur tekið sér forystu fyrir þó svo hann hefði verið valinn að sitja í stjórn Landsvirkjunar.

Vona eg hafi náð að hnykkja betur á þessu sjónarmiði í fyrri athugasemd.

Bestu kveðjur norður heiðar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 6.5.2008 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband