Femínískt samsæri eða áfangi í jafnréttisbaráttunni?

Það er með ólíkindum að unnt sé að sjá femínískt samsæri út úr valinu á Margréti Láru sem íþróttamanni ársins, eins og skilja má af ýmsum textum hér í blogginu. Samt hef ég nú lúmskt gaman af þessu meinta femíníska samsæri. Reyndar er ég ekki heldur viss um það sé skynsamlegt að reyna að sjá út úr þessu einhvern jafnréttissigur, eins og mér sýnist val hennar einnig vera túlkað til marks um.

Ætli mikilvægasti árangur Margrétar Láru sé ekki sá að íslensk kvennaknattspyrna er nú samkeppnisfær við knattspyrnu annars staðar? - Margrét Lára skorar mörk á við meðalhandboltamanneskju! - Hún benti þó á í sjónvarpsviðtalinu eftir hún tók við gripnum að hún er hópíþróttamanneskja og þar af leiðandi getur hún ein aldrei náð þess háttar árangri enda hafa aðrar íslenskar knattspyrnukonur náð langt, líka í þessu kjöri á fyrri árum. Þetta undirstrikar Margrét Lára í blaðaviðtölum sem ég hef lesið í dag.

Ánægjulegt er að það komu margir frábærir íþróttakarlar og -konur til greina og að fleiri en einn annar íþróttamaður eða -kona hefði getað hampað titlinum með fullri sanngirni, þótt mér sýnist val Margrétar Láru langeðlilegasta valið. Óskaplega er þó erfitt að bera saman árangur í ólíkum íþróttum, og það vita auðvitað þeir sem að valinu standa, íþróttafréttamenn, allra best.

Ef keppnisskap ræður einhverju um val íþróttamanns ársins virðist mér Margrét Lára vera fremst meðal jafningja. Það er stórkostlegt að sjá þegar fólk hefur gaman af því sem það er fást við, eins og Margrét Lára hefur sannarlega. Ég held að hún muni ná gríðarlega langt í sinni íþrótt, með þá hæfileika og áhuga sem hún hefur, og óska henni velfarnaðar og til hamingju.


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, ég er verulega stolt af henni litlu frænku minni núna
Hún er svo sannarlega vel að þessum titli komin og óhætt að segja að hún sé búin að leggja grunnin að þessu í mörg ár. Man eftir henni sem sjö ára hnátu byrjuð að seiglast þetta með boltann á fullu í öllum frímínútum en alltaf samt jafn hógvær og lítið fyrir að trana sér fram. Flott stelpa!!!

Eygló 30.12.2007 kl. 02:52

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Já, takk fyrir innlitið, Eygló, og til hamingju með frænku þína

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 30.12.2007 kl. 08:29

3 Smámynd: svarta

Hvað sem feminískum samsærum gegnir, þá hefði ég viljað sjá glímumann taka við bikarnum. Hvenær gerist það? Geta feministar ekki haft áhrif á það?

svarta, 31.12.2007 kl. 01:41

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hæ, Svarta, ert þú komin á kreik aftur?  Þarf þá ekki glímumaðurinn að vera Mývetningur? Og má það vera glímudrottning? Áttu ekki annars við íslenska glímu?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 31.12.2007 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband