Skattsvik og velferð

Í frétt í Markaðinum, blaði á brúnleitum pappír sem fylgir Fréttablaðinu, kemur fram að vaxandi skattbyrði í Danmörku hafi ekki orðið til að auka skattsvik. Í upphafi 20. aldar hafi skattsvik verið um fjórðungur en komin niður í 5% um 1980. Enn fremur kemur fram að einstakar breytingar á skattalögum virðist ekki hafa haft áhrif á þróun skattsvika. Þetta er afar athyglisvert og að einhverju leyti í ósamræmi við það sem maður hefði trúað. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að hið fyrrnefnda er skýrt, skv. fréttinni, með því að fólk sætti sig við aukna skatta vegna aukinnar velferðar. Það er nú akkúrat þess vegna sem mér líkar ágætlega að borga mín opinberu gjöld og var ekki hrifinn af því þegar svokallaður hátekjuskattur var aflagður eða lækkaður fyrir fáeinum árum. Ég hef löngum sagt söguna af því þegar skattur minn lækkaði um 25 þúsund krónur á ári vegna breytingarinnar en á sama tíma var eigin greiðsla fyrir dýrt lyf hækkuð og 5 þúsund krónur fóru beint í það (á ári). Ég græddi smápening, þeir sem ekki nutu skattalækkunarinnar urðu fátækari af því að þeir þurftu líka að greiða hækkunina fyrir lyfið, samfélagið varð eilítið lakara þar sem samtryggingin og velferðin minnkuðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.12.2007 kl. 01:04

2 identicon

Áhugaverð staðhæfing, sérstaklega í ljósi þess að bæði Svíar og Danir hafa einmitt verið að vakna upp við að skattsvik í báðum löndum eru margföld á við það sem þeir trúðu sjálfir. Svört vinna er að koma töluvert í ljós í báðum löndum. Svo eru skattsvik líka fólgin í stórfelldu svindli á bótakerfunum sem einnig eru að koma í ljós að eru talsvert meiri en þeir héldu. T.d. er skráning fjarveru vegna veikinda barna í Svíþjóð að stóraukast samfara því að fjarvera barna í skólum vegna veikinda stendur í stað og jafnvel minnkar. Þetta telst auðvitað ekki til beinna skattsvika en er í raun ekkert annað.

Báðar þjóðirnar hafa verið algjörlega grænar þegar kemur að skattsvikum og haldið að allir væru voðalega glaðir með að borga bara síhækkandi skatta. Það sem fólk hefur ekki áttað sig á að þeir sem eiga umtalsverða peninga í þessum löndum hafa ásamt mörgum stórfyrirtækjum verið að flytja hljóðlega úr landi og taka þar með verulegar upphæðir út úr skattstofninum. Einu lausnirnar sem boðið hefur verið upp á er að hækka skatta og þar með fæla sífellt fleiri stóra aðila í burtu. T.d. býr Ingvar Kamprad ekki lengur í Svíþjóð og fyrirtæki hans IKEA er löngu farið til m.a. Lúxemborgar til að komast undan ofursköttum.

Þessir stöðugt hækkandi skattar munu á endanum sjá til þess að fáir verða eftir nema meðal- og lágtekjufólk og hver á þá að borga hinn sífellt stækkandi opinbera spena?

Gulli 23.12.2007 kl. 10:01

3 identicon

Þetta átti að vera "...skráning fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna...

Gulli 23.12.2007 kl. 10:06

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitin, Kjartan og Gulli. Markaðurinn heldur því reyndar fram að skattsvik hafi ekki aukist í Danmörku - en nýrri tala en frá 1980 um hlutfallið er ekki nefnd. Annars hljóta skattsvik eðli máls samkvæmt ætíð að verða fremur óljós tala og erfitt að mæla eða meta nákvæmlega. Þekki ekki þróun fjarveru vegna veikinda barna í Svíþjóð en hér á landi er sá réttur mjög takmarkaður og næsta víst að fjarvera frá vinnu vegna veikinda barna myndi aukast ef sá réttur yrði aukinn, án þess að fjarvera barna úr skólum myndi þurfa að aukast, þar sem þessi réttur er of lítill nú um stundir. Hvort eitthvað svipað gerðist í Svíþjóð veit ég ekki. Ég hef svo sem orðið var við það sjónarmið að "nota" veikindadaga í kjarasamningum; ég skil svoleiðis sjónarmið ekki því að þá er einstaklingurinn réttlaus ef til langvarandi veikinda kemur. Orðið tryggingasvik hefur verið notað um svindl þegar kemur að almannatryggingum og slæmt ef þau eru notað sem rök gegn almannatryggingum.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.12.2007 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband