Öfgar eða róttækni í trúmálum og jafnréttismálum?

Í dag fylgdist ég með hluta af þætti Egils Helgasonar þar hann ræddi við Sóleyju Tómasdóttur, Drífu Snædal og Katrínu Önnu Guðmundsdóttur (talið frá vinstri eins og þær sátu í þættinum). Ein spurninganna var hin sígilda spurning um "öfga". Honum var svarað neitandi: Femínismi væri ekki öfgar. En viðmælendur gengust við róttækni. Á þessu er munur - en munurinn snýst líka um að við komum fram hvort við annað af lágmarksvirðingu.

Sams konar sjónarmið gagnvart trúleysi "leikur lausum hala", t.d. í grein sem Tómas Torfason, formaður KFUM og KFUK á Íslandi, ritaði í 24 stundir á miðvikudaginn var (bls. 16). Hann ræðir þar um fámennan "öfgahóp sem leiki lausum hala" en nefnir reyndar aldrei hver þessi hópur er nema að hann sé trúlaus andstæða leiðtoga í sértrúarsöfnuðum. Ég hlýt að taka orð hans að einhverju leyti til mín þótt ég neiti því að hafa sett fram neins konar kröfur um trúmál og trúfræðslu sem "endurspegla frekju". Ég hef ritað nokkrar greinar um þessi málefni í blöð, sú fyrsta er líklega þessi. Kunna að vera róttæk sjónarmið en þó má efast um það; er það róttækt að Ísland fari að yfirlýsingu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eins og Siðmennt ætlast til og er tekið mið af í lagafrumvörpum um skóla? Kannski á Tómas einmitt við Siðmennt eða annan félagsskap að nafni Vantrú. Eða á hann við hinn breiða fjölda okkar sem aðhyllumst ekki trú og erum þess vegna ekki í trúfélagi?

Ásökun um öfgar er of mikið notuð í samfélaginu - en sú ásökun er stundum sett fram á öfgafullan hátt í merkingunni ofstopi eða ýkjur eins og orðið öfgar er útskýrt með í Íslenskri orðabók (Edda, 2002). Vörum okkur á slíkum ásökunum, látum hvort annað njóta þess vafa að vera talin róttæk. Sennilega er Tómas Torfason róttækur kristinn maður sem vill verja ástand sem hann telur gott - en er ekki í fullu samræmi við kröfur Sameinuðu þjóðanna. En mér þykir afskaplega ólíklegt að hann sé ofstopafullur öfgamaður þótt mér mislíki málflutningur hans.


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Bensi spyr hvers vegna skólafólk haldi sig til hlés í umræðunni um trúmálin. Ég held að það sé meðal annars vegna þess að umræðan virðist sjaldnast ná því að vera umræða. Má vel vera að með þessari fullyrðingu sé ég að setja mig á stall. En ég veit líka að ég verð stundum rosalega frústeruð þegar ég les bæði innlegg og athugasemdir. Þar sem fólk virðist leggja sig í líma við að misskilja og mistúlka. Umræðan líkist á stundum leðjuslag og ber ekki vott um umburðarlyndi, sáttfýsi eða annað það sem nú er lagt til að verði sett inn í lög um grunnskóla í stað hins kristilega siðgæðis.

Sennilega er rétt hjá þér, að hér eru nokkrir róttækir hópar að takast á. (Og hver hefði trúað því fyrir aldarfjórðungi að þjóðkirkjuforystan flokkaðist sem róttæk?) Má vera að í sumum hópunum finnist öfgafólk, (þá í miklum minnihluta) en ég tek undir mér þér, við skulum varast að skella þeim stimpli á alla.

Kristín Dýrfjörð, 10.12.2007 kl. 01:23

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sammála þér, Kristín, og bendi á að þú hefur ágætis efni á að tala um þetta með rannsóknir þínar að baki.

Vandinn sýnist mér einkum sá að ef hér á að fara "meðalveg" er hann nokkuð róttækur miðað við íslenska hefð. Samt er þessi afstaða ekki róttæk: Siðmennt er hvorki á móti kristinfræði né trúarbragðafræði og telur eðlilegt að kristinfræði fái stóran hluta í kennslunni í ljósi sögu þjóðarinnar og stærð kristninnar hér. Þá á ásatrú einnig að fá sinn sess af sögu- og menningarlegum ástæðum.

Og er þessi afstaða róttæk? Siðmennt vill frið um skólastarf og að öllum börnum sama frá hvaða bakgrunni þau koma, líði vel í skólum landsins og þurfi ekki að óttast að vera skilin útundan eða vera mismunað vegna lífsskoðana foreldra þeirra. (Ályktun Siðmenntar í heild hér.) Krafa af þessu tæi er sanngjörn, hún er krafa um mannréttindi - og hún er ekki brot á mannréttindum neinna annarra eins og mér finnst gefið í skyn, t.d. í grein Tómasar Torfasonar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.12.2007 kl. 07:29

3 Smámynd: Sigurður Hólm Gunnarsson

Takk fyrir gott innlegg.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Stjórnarmaður í Siðmennt

www.skodun.is



Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi

www.sidmennt.is

Sigurður Hólm Gunnarsson, 10.12.2007 kl. 09:52

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Ingólfur! 

Ég er hinsvegar að velta fyrir mér hversu "róttæk" ríkiskirkjan er?  Er hún ekki bara í hræðslu sinni við að missa stöðu sína sem "meirihlutatrú" að gerast ofgafull?

Öll kristin siðfræði, eins og ég þekki hana ætti að geta tekið undir mannréttindasáttmála SÞ? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 11:02

5 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sælinú!

Já ég get tekið undir það með þér og öðrum sem stundum hafa verið nefndir "öfgamenn eða konur" að mér finnst oft vanta aðeins upp á rökstuðning að baki ásökun. Hef oft spurt mig hvað eru öfgar eiginlega og getur verið að þær eigi oft frekar við um þann sem ásakar aðra um öfgar? Hversu fljótt/langt verður þangað til USA og heimurinn áttar sig á hvers lags últraöfgamaður Bush er t.d.? Gætu það mögulega talist öfgar hvernig kristnir reyna að verja og troða kristnifræðslunni inn í skólana? Eru það mögulega öfgar hvernig síbrotamenn samfélagsins komast stanslaust og án refsinga upp með að brjóta jafnréttislög? 

Já, kona spyr sig um öfgar og hvar þær liggja helst :) 

Andrea J. Ólafsdóttir, 10.12.2007 kl. 11:42

6 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Orðið öfgafullur er held ég að öðlast nýja merkingu í íslensku. Ég held að í nútíma íslensku þýði orðið "skoðanir þínar eru mér svo framandi og ég hef engin rök gegn þeim". Ég er ekki sammála notkun orðsins á þennan hátt, en mér finnst oft þegar verið er að ræða réttmæta kröfu okkar foreldra á trúarboðslausum skóla, þá eru þetta viðbrögðin að við séum öfgafull. Það skiptir þó engu máli hvort við ræðum að kurteisi. Að vera ákafur stuðningsmaður einhvers málstaðs, er líka ávísun uppá að vera kallaður öfgasinni. Ég las greinina sem þú vísaðir í og er þér allveg sammála. Fyrir 2 árum síðan var ráðin sjúkrahúsprestur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, en sjúkrahúsdjákni var þar fyrir. Þar sem þessir starfsmenn eiga líka að geta sinnt starfsfólki FSA, þá spurði ég sem trúlaus starfsmaður, hvort ekki hefði verið nær að annar hefði verið án tengingu við trúarbrögð svo sem sálfræðingur eða eitthvað þess háttar, þar sem ekki væri öruggt að allir væru kristnir sem þyrftu á þessari þjónustu að halda. Sú spurning þótti ekki svaraverð.

Ásta Kristín Norrman, 10.12.2007 kl. 11:49

7 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll aftur, nei mér finnast málefni Siðmenntar ekki öfgafull, annar sonur okkar valdi að ferma sig í kirkju (í sjálfri Hallgrímskirkju hjá biskup), hinn valdi borgarlega fermingu hjá Siðmennt. Hann var mjög ánægður með þá fræðslu sem hann fékk þar.

Mér finnst Barnasáttmáli SÞ ekki vera öfgafullur, mér finnast það vera mannréttindi að honum sé framfylgt. Það er í raun óskiljanlegt í landi sem sem stendur jafn vel og Ísland að þar séu átök um réttmæti hans. En í mínum huga eru átökin um réttmæti boðunarinnar m.a. átök um Barnasáttmála SÞ og réttmæti hans. Kannski teljum við okkur sem þjóð vera yfir hann hafinn, allt sé gott hjá okkur og þess vegna þurfum við ekki að fara eftir "svona plöggum". Hann sé bara fyrir aðrar þjóðir (lesist, utan vestur Evrópu). Hann sé það sem "við gerðum" fyrir þær.

En í öllum hópum er fólk sem er einstrengingslegt í skoðunum, það fólk finnst innan Þjóðkirkjunnar, innan Siðmenntar og Vantrúar.  Líka á meðal þeirra sem vilja halda sig utan flokkunar. Sjálf hef ég verið kölluð últra vinstri (ekki að mér finnist vera skömm að því en það er eins líklegt að vinstri, vinstri fólk telji mig vera hægri megin við miðju). Þessi stimpill á sínum tíma átti að duga til þess að gera lítið úr skoðunum mínum, gjaldfella þær. Þekkt tæknibragð, þegar ekki er vilji til þess að ræða innhaldið.

Stundum verður bilið á milli einstrengingslegra skoðana og öfga hárfínt. Sumir sem tekið hafa þátt í umræðu síðustu daga hafa farið yfir þetta hárfína strik. Ég met það svo að í þeim hópi sé "kirkjufólk" í meirihluta. 

ps. Ásta Kristín, getur verið að ástæðan sé að djákni er ódýrari í rekstri en sáli fyrir fjárhagslega svelt sjúkrahús? (Ekki að það séu rök). 

Kristín Dýrfjörð, 10.12.2007 kl. 13:29

8 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka ykkur öllum innlitið, Sigurður, Anna, Andrea, Ásta og Kristín: Ein af ástæðum þess að guðfræðimenntað fólk er ráðið í svona störf, fyrir utan vilja kirkjunnar (sem samanstendur af fólki), er sú að þar er kostur á sálgæslumenntun og sálgæsla er ríkur þáttur í skyldum presta. Ég þekki menntun þeirra þó ekki mikið annað en mér er vel kunnugt um að þar margt gott fagfólk, sem ég treysti, en ég bara held að það sé skylda að taka spurningu Ástu Kristínar alvarlega. Það er verið að spyrja hennar af mannréttindaástæðum vegna þess að fólk upplifir útilokun við aðstæður af þessu tæi.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.12.2007 kl. 15:04

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ábending Ástu Kristínar er mjög góð og fullkomlega gild. Þótt sumir leiti huggunar í trúnni þegar eitthvað bjátar á í lífinu á það alls ekki við alla. Jafnvel myndi meirihluti fólks frekar þiggja sálfræðiaðstoð undir slíkum kringumstæðum heldur en svokallaða "sálgæslu" hjá misvitrum prestum þjóðkirkjunnar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.12.2007 kl. 15:53

10 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Bendi á tvo góða pistla á bloggsíðum veraldarvefsins:

Kjartan Pierri Emilsson á eyjan.is

og Jón Yngvi Jóhannsson

Soffía Sigurðardóttir, 10.12.2007 kl. 16:06

11 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Til Kristínar Dýrfjörð! Mér finnst ekki skipta máli hvort sé dýrara djákni eða sáli, en nú var ráðin prestur í stað sála og prestar eru ein af dýrustu stéttunum innan ríkisstarfsmanna sem vinna með fólk, svo ég efast um að prestar séu ódýrari en sálfræðingar.

Ásta Kristín Norrman, 10.12.2007 kl. 16:32

12 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ég held að þetta sé mjög þýðingarmikill punktur hjá Láru Hönnu, því að þótt ég vilji síður lasta fagmennsku sjúkrahúspresta eða sálgæslu annarra presta, þá held ég að það sé næsta víst að sú samfélagsþjónusta sem góð sálfræðiaðstoð getur verið er of lítil í boði og of dýr. Ég held að þú hafir hárrétt fyrir þér að meiri hluti þjóðkirkjufólks myndi líka kjósa sálfræðinginn ef hann stæði til boða á sömu kjörum. Skyldi e-m hafa dottið í hug að kanna þetta?

Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að sumt í stífni kirkjunnar gagnvart mannréttindakröfu Sþ. um trúfræðslu og ekki síður íhaldssemi hennar gagnvart jafnrétti homma og lesbía skaði hið góða sem lútersk kirkja getur boðið.

Og þakka þér fyrir slóðirnir, Soffía, inn á þessi frábæru innlegg þeirra Kjartans og Jóns Yngva.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.12.2007 kl. 19:29

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir það Ingólfur, pislarnir hennar "soffíu" eru bara frábærir!Ég veit alveg hvað ég myndi velja fyrir mig og mína, ef ég ætti val, ef til sálarháska kæmi.  Ekki trúarsöfnuð, heldur eigum við svo velmenntaða sálfræðinga og geðlækna að það er óþarfi að bendla kristni við sálgæslu.  Einmitt að forðast trúarhjal við andlega erfiðar aðstæður, nema að fólk vilji það sjálft og þá er sjálfsagt að kalla til prest, imam, rabbía eða jóga til!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 19:49

14 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Fyrst, Ásta Kristín það var ekki mín ætlun að særa þig eða neinn annan. Að sjálfsögðu tel ég það vera mannréttindi allra að fá sálgæslu frá þeim sem viðkomandi telur best til þess fallinn, sérstaklega inn á spítölum. Auðvitað er það svo að sumir vilja trúarlegan stuðning á áfallastundum og enn aðrir vilja hitta fólk sem hefur ekkert með trúarbrögð að gera. Ég ætlaði ekki í vörn fyrir presta eða kirkju. Ég er ein þeirra sem finnst kirkjan hafa farið út af sporinu á sálnaveiðum sínum. En ég hef líka þurft sem aðstandandi að vera mánuðum saman á spítala, mér fannst notalegt þegar sjúkrahúspresturinn kom og settist hjá mér og rabbaði um daginn og veginn, um jólabækur og pólitík. Hann var kannski einn fárra starfsmanna sem hafði það í starfslýsingu. Mér hefði örugglega fundist alveg jafn notalegt ef sálfræðingur hefði gert það. Svo framarlega sem það hefði aðeins verið spjall um daginn og veginn. Mínar samræður við presta snérust ekki um trú og ekki um mína líðan andspænis dauðanum. Enda kærði ég mig ekki um slík samtöl, hvort sem sálfræðingur eða prestur hefði átt í hlut.

Þetta með djáknana og sálana var sett fram í hálfkæringi, meðal annars vegna síðustu frétta um útvistun og niðurskurð í heimbrigðiskerfinu, kerfi sem mér finnst okkur bera skylda til að verja með kjafti og klóm. 

Varðandi Siðmennt þá tek ég undir að það eru sjálfsögð og eðlileg krafa að við störfum eftir sáttmálum sem við erum aðilar að. En ég held stundum að við höldum að þessir sáttmálar séu fyrir hina (hina sem eru ekki vestur Evrópa). Séu til svo að við getum sýnt þeim hvernig á að gera. Málin séu í svo flottum jarðvegi hjá okkur að við þurfum ekkert að vera að skoða hvað við höfum undirritað.

Og svo er ég búin að hugsa töluvert um róttæklinga og öfgamenn í dag. Ég er komin á þá skoðun að það sem við kannski eigum við sé fólk sem er einstrengingslegt. Með einstrengingslegar skoðanir. Sem getur undir engum kringumstæðum skipt um skoðun og getur ekki séð önnur rök en sín eigin. Fólk sem hefur það móttó að tilgangurinn helgi meðalið. Og því miður er slíkt fólk í öllum hópum, fólk sem kemur illu orði á málstaðinn (hver sem hann er). Mér sýnist í umræðunni um trúmálin undanfarna daga sé trúarfólkið afar fjölmennt í hópi einstrenginganna. Sennilega myndi ég flokka Tómas í þann hóp. Sigurð Hólm flokka ég ekki þar.

Kristín Dýrfjörð, 11.12.2007 kl. 02:47

15 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Frábær pistill og góð umræða. Gaman að sjá svona umræðu um femínisma og trúmál án þess að fólk sé að kasta drullu hvort á annað. Meira svona. :)

Svala Jónsdóttir, 11.12.2007 kl. 18:33

16 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

 

Leit inn og sá að ég hafði sett inn efnislega sömu athugasemd tvisvar, biðst afsökunar á því. Tölvan er að stríða mér þessa daga og með reglulegu millibili, lokar hún fyrirvaralaust öllum forritum og spyr hvort ég vilji senda error report. Þetta gerðist þegar ég var að klára athugsemdina og skýringu til Ástu Kristínar, ég taldi mig ekki hafa náð að þrýsta á senda, og skrifaði því svipaða athugasemd aftur. (Soldið fljófær stundum) Vona að mér fyrirgefist, ætlaði ekki að vera plássfrek á blogginu þínu Ingólfur.

Kristín Dýrfjörð, 12.12.2007 kl. 02:28

17 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér nú bara fyrir innlitin, Kristín, ef það væri mesta vandamál bloggheimanna að þú hefðir skrifað líkt efni í athugasemdirnar, þá væru vandamálin auðveld að sætta sig við. Takk líka fyrir innlitið, Svala J. og Anna B.M.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.12.2007 kl. 07:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband