Baráttan um Gjástykki

Gjástykki í Þingeyjarsýslu er ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk kannski það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Landrekskenningin sannaðist þarna fyrir augum okkar og allt var vel skráð og skoðað. Þar eru aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri, bæði andleg og efnaleg. Þarna ættu stjórnvöld því að berjast fyrir uppbyggingu eldfjallafræðagarðs.

Samt vill Landsvirkjun taka Gjástykki og virkja þar til að selja Alcoa orkuna. Undir þetta taka sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu, þó með þeim fyrirvara að í Gjástykki verði síðast leitað að orku, þegar búið er að taka önnur háhitasvæði norðan hringvegarins. Skemmst er að minnast leyfis sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins gaf út tveimur dögum fyrir síðustu kosningar og Landvernd og SUNN kvörtuðu undan við iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd Alþingis (sjá m.a. blogg). Leyfið ætti að afturkalla en mér vitanlega hefur það ekki verið gert.

Nú má búast við því að baráttan um Gjástykki og Þeistareyki harðni ef hætt verður við álver fyrir sunnan (sjá m.a. frétt á vefsíðu NSÍ). Náttúruverndarunnendur um allt land: Látum ekki verða annað Kárahnjúkaslys! Heimsækjum þessi svæði næsta sumar til að við þekkjum þau betur. Getur verið að landinu við Kárahnjúka hafi verið sökkt af því að það þekktu fáir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan og tímabæran pistil Ingólfur. Baráttan um Gjástykki er hafin og það verður að bjarga þessu svæði frá álbræðslurisunum. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 14.11.2007 kl. 08:53

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ertu fluttur suður? Sá reyndar þú varst kominn með lbhi-netfang, en hélt þú værir ennhér. Hvað ertu að bedrífa? Þú verður að hjálpa til í baráttu bæði fyrir norðan og sunnan.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.11.2007 kl. 12:23

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fagna mikilvægum stuðningi við sameiginlegt baráttumál okkar, Ingólfur. Sérstaklega er mikilvægt að sem flestir láti í sér heyra eða skrifi um þetta mál vegna þess hve gríðarlega mikið verk er óunnið í að kynna þetta svæði og leiða í ljós hve mikil óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif virkjanaáformin þanra munu hafa.

Slæm og algerlega óafsakanleg umhverfisspjöll voru unnin við Trölladyngu á Reykjanesskaga með því einu að fá þar fljótfengið rannsóknarleyfi fram hjá Skipulagsstofnun og Umhverfsstofnun.

Jarðýtur sem ryðjast um nýja hraunið í Gjástykki aðeins til þess að leggja vegi og plön vegna rannsóknarhola geta valdið ótrúlega miklum, óafturkræfum spjöllum.

Ég set baráttuna fyrir ósnertanleika Leirhnjúks-Gjástykkissvæðisins efst á forgangslista minn í andófinu.

Minni á blaðagreinar mínar og bloggfærslur vegna þessa máls.  

Ómar Ragnarsson, 14.11.2007 kl. 19:31

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Landvættirnir eru fimm. Ómar er þeirra mikilvægastur og óhvikull í varðstöðunni. 

Árni Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 21:17

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það þarf geysilega ágenga nýtingu á jarðhitasvæðunum fyrir álverksmiðjur. Það nálgast rányrkju. Aðeins gufan nýtist til rafmagnsframleiðslu en heitt rennandi vatn nýtist ekki þegar ekki er þörf á hitaveitu. "Með því að nýta jarðgufu til rafmagnsframleiðslu er nýting heil 15% og 85% renna í sjóinn, en tæpast brúka menn kyndingu í hitabeltinu." "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni" var haft eftir einum prófessornum í Mogganum í síðasta mánuði.

Pétur Þorleifsson , 15.11.2007 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband