Malbikaður vegur eða upphækkaður

Mikið búið að tala og blogga um veg yfir Kjöl undanfarið - og mér virðist að það séu aðallega tveir kostir ræddir: Óbreytt ástand eða upphækkaður vegur. Nú er upphækkaður langleiðina inn að Hveravöllum upp úr Blöndudal - bara ekki þá leið sem fyrirtækið Norðurvegur vill fara sem er yfir friðlýst land.

Fáir ef nokkrir eru á móti vegabótum á Kili, a.m.k. ekki þeir sem hafa ekið veginn. Engan langar að aka í rykmekki og í sjálfu sér langar engan að aka eftir vegi með þvottabrettum, þótt mér finnist þau séu skárri en rykið. Slíkar vegabætur þurfa að vera í samhengi við stefnumótun um friðlýsingu og aðra landnotkun á hálendinu. Persónulega fyndist mér réttast að malbika veginn en láta hann liggja í landinu sem sumarveg þar sem umferðarhraðinn er mest 70 km og alls ekki ætlað fyrir þungaflutninga. Malbikið er hins vegar ekki ódýrt - nema líklega til lengri tíma. Slíkur vegur um Kjöl yrði vegur ætlaður ferðafólki fyrst og fremst - og er það ekki af hinu góða að hugsa fyrir þeirri atvinnugrein?

Finn ekki Moggann þar sem umhverfisráðherra lýsti andstöðu við upphækkaðan veg; man einhver hvort hún sagði eitthvað um malbik? Það er þrasað um hvort samgöngu- og umhverfisráðherra muni koma sér saman um málið og hvað umhverfisráðherra hafi sagt; samgönguráðherrann fullvissar lesendur Moggans í dag um að þau muni koma sér saman. Það er nú bara ekki nóg - það þarf að vera víðtæk samstaða um vegabæturnar. (Sjá fyrri færslu.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Mér sýnist þessi umræða vera að stefna í þessa venjubundnu kleyfhuga þjóðaríþrótt okkar Íslendinga. Annað hvort niðurgrafinn moldarslóði eða hraðbraut að amerískri fyrirmynd.

Hér þarf nákvæmlega einhverja aðra nálgun en slíka, eitthvað í líkingu við þá sem þú lýsir hér að ofan Ingólfur. Best væri ef hægt væri að ná umræðunni á það plan í stað þess að fara í skotgrafir strax með tvær algjörlega andstæðar útfærslur þar sem ekkert annað kemur til greina.

Bestu kveðjur.

Ragnar Bjarnason, 17.6.2007 kl. 21:08

2 Smámynd: Jónas Egilsson

Viðtalið við umhverfisráðherra birtist í blaðinu sunnudaginn 3. júní sl., tilvitnunin er á bls. 2 í sama blaði.

Jónas Egilsson, 19.6.2007 kl. 00:54

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þakka þér fyrir Jónas. Þetta er mjög merkilegt viðtal að því leyti að í lokaorðum er ráðherrann spurð að því hvort hún vilji malbika Kjöl. Hún svarar: "Skoðun mín hefur lengi verið að uppbyggðir vegir eigi ekki heima á miðhálendi Íslands." Hvað hún kann að hafa sagt um malbik kemur ekki fram í beinni ræðu - en Mogginn telur hefur það eftir henni á bls. 2 þótt það komi ekki fram í sjálfu viðtalinu. Og ráðherrann leggur áherslu á að gert verði landskipulag og að stórframkvæmdir á hálendinu verði í samræmi við það. Undir það má taka. Gott væri ef ráðherrann upplýsti hvort Mogginn hefur malbiksandstöðuna líka eftir henni!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.6.2007 kl. 07:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband