Er hlutverk framhaldsskóla að búa til meðfærilega nemendur fyrir háskóla?

 Fróðlegt er að skoða gamlar blaðagreinar sem ég hef skrifað - hér er ein þeirra, birt í DV 5. febr. 1986

Fyrir rúmum tveimur árum hélt Bandalag háskólamanna ráðstefnu um undirbúning háskólanáms og aðgang að því. Erindi ráðstefnunnar voru gefin út í litlu hefti ári síðar. Í þeim kennir margra grasa og frummælendur hreint ekki sammála. Hér er ekki ætlunin að ræða efni ráðstefnunnar til hlítar, heldur drepa á eitt atriði sem nokkuð bar á góma, þ.e. undirbúning nemenda á fyrri skólastigum.

Eiga skóla að búa til nemendur?

Margir líta svo á að hlutverk „lægri" skóla sé „að búa til nemendur" fyrir þá skóla sem á eftir koma. Sjónarmið kennslustjóra Háskóla Íslands á nefndri ráðstefnu virðist vera af öðrum toga. Hann telur að það sé „nokkur kostur út af fyrir sig að fá nemendur yngri að árum til háskólanáms en nú er. Líklega má gera ráð fyrir því að nemendur séu því áhrifagjarnari eða námfúsari sem þeir eru yngri, að því eldri sem menn verða því fastmótaðri og ósveigjanlegri verða skoðanir þeirra og viðhorf" (bls. 51). Þetta sjónarmið er í mikilli andstöðu við þau sjónarmið að meginhlutverk skóla sé að þroska nemendur og búa undir lífið.

Fjölbreytni hefur aukist í framhaldsskólanámi og ég tel brýnt að gera enn þá betur. Það sem síst má er að út úr skólum komi einlit hjörð nemenda sem allir hafa innbyrt sömu þekkingaratriðin gagnrýnislaust. Ef skólar miða allt starf sitt við næsta skóla eins og hann er, verður aldrei neitt annað en stöðnun. Það verður heldur aldrei neinn möguleiki á að þroska lýðræðiskennd nemenda ef þeir eiga að vera sem „meðfærilegastir" og hlýðnastir yfirboðurum sínum.

Hafa skólar versnað?

Algengt er að heyra því haldið fram að skólar léttist sífellt. Ég hygg að þetta séu tómar bábiljur og á síðustu 10 til 15 árum hafi t.d. námsefni menntaskóla bæði aukist og þyngst. Miklar framfarir hafa líka orðið í grunnskólum – skólastarfið er ekki jafnmikið niðurreyrt – þrátt fyrir að mér og mörgum öðrum finnist samt of hægt miða.

Margir háskólamenn kvarta undan „verri nemendum" úr framhaldsskólum. Sjá þeir kannski eftir „elítuskólunum" sem svo fáir áttu aðgang að? Guðmundur Magnússon, hagfræðiprófessor, sem var rektor HÍ sagði á þessari ráðstefnu: „Ég held að það megi segja sem almenna niðurstöðu að stúdentar úr hinum nýju fjölbrautaskólum komi heldur verr út en stúdentar úr hefðbundnum menntaskólum og Verslunarskóla Íslands …" (bls.43). Og meðal kollega minna í framhaldsskólum er oft nöldrað yfir þekkingarleysi busanna.

Heilmiklir fordómar felast í þessum viðhorfum sem ég hef lýst. Þau byggjast hjá mörgum á þekkingarleysi á því hvað gert er á skólastigum sem á undan koma. Skólar þurfa að laga sig að þjóðfélaginu og þeim nemendum sem það þjóðfélag skapar.

Arðsemi eða persónuþroski?

Persónuþroska er erfitt að meta út frá arðsemissjónarmiðum. Mig minnir að í leiðara DV fyrr í vetur hafi það verið gert og kvartað undan lélegri „framleiðni" skóla. Hugtakinu framleiðni er erfitt að beita á skólastarf af skynsamlegu viti því að það er svo erfitt að skilgreina hvað persónuþroski og manngildi eru. Auðveldara er að skilgreina hvað nemandi á að kunna í stærðfræði, finna námsefni sem svarar til þeirra markmiða og mæla svo (með prófi), heldur en gera sama hlutinn um manngildi.

Þess vegna má ekki líta á fjárfestingu í skólum sem hverja aðra fjárfestingu sem á að skila arði á ákveðnum tíma, heldur á hún að skila þjóðfélagi fullu af vel menntuðum einstaklingum og sem allra „ómeðfærilegustum" í þeim skilningi að þeir taki ekki við boðskap yfirboðara gagnrýnislaust og trúi ekki allri „Morgunblaðslygi", hvar sem hún birtist.

Sjá einnig http://www.ismennt.is/not/ingo/MENNTC.HTM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband